Kæru félagar í Keili.

Eins og flest ykkar hafa tekið eftir eykst ásókn í golf á okkar völlum stöðugt og flestir ef ekki allir dagar fullbókaðir. Félögum hefur ekki fjölgað en fleiri eru virkir í skráningum og eftirspurn hefur aukist til muna. Veðrið þetta sumarið hefur ekki verið kylfingum hliðhollt og mikið um afbókanir á síðustu stundu.
Mikið hefur verið rætt um fyrirkomulag rástímaskráningar og ýmsar hugmyndir borist til stjórnar félagsins. Mjög misjafnt er á milli klúbba hvernig fyrirkomulaginu er háttað. Okkur í stjórn langar núna í lok tímabilsins að prófa nýtt fyrirkomulag og sjá hvaða lærdóm við getum dregið af því.

Nýja fyrirkomulagið sem mun taka gildi frá mánudeginum 5. ágúst n.k. kl 20:00.
1. Kylfingur getur aðeins átt 4 virkar bókanir á hverjum tíma – sama og er núna.
2. Hægt verður að bóka rástíma út restina af tímabilinu – þetta er í raun breytingin!
3. Kylfingur getur áfram afbókað með 2 klst. fyrirvara.
4. Keilir áskilur sér rétt til að fara til baka í núverandi kerfi á tímabilinu.

Okkar markmið með skipulagi rástímaskráningar er fyrst og fremst að tryggja að allir félagar sitji við sama borð og hafi jafnan aðgang. Þessi jöfnun gengur í dag út á að félagi sé tilbúinn þegar nýr dagur opnar á slaginu 20:00 á hverju kvöldi, eða sé stöðugt á vaktinni þegar eitthvað mögulega losnar innan næstu 6 daga.

Það er erfitt að færa rök fyrir hvaða kerfi hentar best til að jafna aðgang og eflaust mikið háð því á hvaða forsendum fólk er í golfi. Margir af okkar virkustu félögum spila í golfhópum á vikulegum föstum tímum. Í skoðanakönnun okkar í lok síðasta tímabils sögðust 32% spila oftast í föstum hópi, 47% sögðust skrá sig eftir hentugleika og 19% spila með fjölskyldunni.

Við lítum á þetta sem tilraun til að læra af og mikilvægt að félagsmenn taki þátt í umræðunni sem vafalaust mun skapast. Við viljum hvetja til jákvæðrar og upplýsandi umræðu sem mun án efa koma okkur á betri stað með jöfnun á aðgengi að þessari sameiginlegu auðlynd okkar.

Með von um jákvæð viðbrögð og umræðu.

Stjórn Keilis.