FISK – Unglingamótið fór fram á Golfklúbbi Skagafjarðar síðustu helgi en mótið er hluti af Unglingamótaröð GSÍ. Á þessari mótaröð eru spilaðar 54 holur með niðurskurði í flokkum 15-16 ára og 17-18 ára hjá piltum og stúlkum en 18 holum var aflýst í piltaflokki vegna veðurs.

Keilir átti 2 stelpur sem kepptu í stúlknaflokki en þær kepptu báðar í flokki 15-16 ára. Hvorugar náðu sér að spila sitt besta golf í mótinu en Tinna Alexía Harðardóttir náði bestum árangri Keilis í sínum flokki en hún endaði í 9. sæti í mótinu.

Af piltunum átti Keilir 5 keppendur í 15-16 ára flokki og 1 keppenda í 17-18 ára flokki. Í yngri flokknum spilaði Víkingur Óli best Keilismanna en hann var í fjórða sæti. Besti árangur mótsins hjá kylfingum Keilis kom hjá Skúla Gunnari Ágústssyni þegar hann gerði sér lítið fyrir og sigraði 17-18 ára flokkin með 3 höggum en Skúli spilaði virkilega vel á síðustu holunum til þess að ná fram sigri.

“Á 16. holu setti ég 4 metra ofan í fyrir fugli, á 17 sem er par 5 sló ég 4 járn rétt vinstra megin við grínið í öðru höggi og krækti fyrir erni í vippinu þannig að ég fékk léttan fugl, og á 18 fór drævið á miðja braut, í innáhögginu sló á mitt grín af 65 metrum og tvö pútt fyrir pari” sagði Skúli þegar hann var spurður um hvernig hann spilaði loka holurnar. Við óskum Skúla innilega til hamingju með verðskuldaðan sigur en hann er búinn að spila stöðugt og gott golf í allt sumar.

Næsta mót á dagskrá hjá krökkunum okkar er núna um helgina en þá fer fram N1 Unglingamótið og GOLF14 mótið í samstarfi við N1 en bæði mótin fara fram hjá Golfklúbbi Reykjavíkur. Keilir er með 10 keppendur skráða til leiks í Unglingamótinu og 12 keppendur í GOLF14.

Áfram Keilir!