03/01/2024

Kveðjum 2023 og fögnum nýju ári.

Kveðjum 2023 og fögnum nýju ári.

Kæru Keilisfélagar.

Fyrir hönd stjórnar GK, langar mig að þakka ykkur fyrir nýliðið ár og óska ykkur öllum farsældar á komandi ári.

Nýliðið ár var gott golfár og voru vellir okkar mikið sóttir af félagsmönnum enda eigum við einn besta golfvöll landsins og skipum okkur í hóp virkustu kylfinga landsins. Árið byrjaði þó nokkuð seint en Hvaleyrarvöllur var ekki opnaður fyrr en 27. maí og lokað var fyrir golfbíla í Hrauninu fram að meistaramóti. Aðsóknin í bæði júlí og ágúst var sú mesta sem hefur sést um árabil hjá okkur enda vorum við öll orðin mjög golfþyrst. Þetta speglaðist einnig í svörum Keilisfélaga við skoðanakönnun á vegum GSÍ núna í sumar. 74% GK félaga svöruðu þá að frekar erfitt eða mjög erfitt hafi verið að fá hentugan rástíma samanborið við 51% meðaltal úr öðrum klúbbum á höfuðborgarsvæðinu.

Já þessi verðmæti ,rástímarnir‘ sem við eigum öll saman, voru svo sannarlega meira eftirsótt en áður. Hér að neðan er mynd með tölum um notkun okkar á rástímunum á Hvaleyrarvelli árið 2023.

Eins og sést á myndinni þá voru 1.313 meðlimir sem staðfestu sig á rástíma. Í heildina eru 1.346 meðlimir á Hvaleyrarvelli sem gerir 98% meðlima skráðu sig á rástíma og staðfestu spil sem er mjög ánægjulegt að sjá. Að jafnaði spilaði hver meðlimur 19,6 hringi á árinu, en nokkur munur er á þessu meðaltali eftir aldursflokkum eins og sést í myndinni. Aldursflokkurinn 71+ sker sig nokkuð úr með hærra meðaltal spilaðra hringja 27,7, en einnig leika meðlimir í þessum flokki um 80% af sínum hringjum fyrir klukkan 15:00.

Langstærsti hópur meðlima er aldursflokkurinn 27-70, en um 73% spilaðra hringja á árinu voru leiknir af þessum hópi. Þetta er sá hópur í okkar félagsskap sem greiðir fullt gjald en aðrir hópar njóta afslátta. Eins og sést á myndinni þá skiptist spil þessa hóps nokkuð jafnt 24-27% yfir daginn í hverju tímabili.

Ásókn í golf á vafalaust eftir að halda áfram að aukast og er umræða í öllum klúbbum á höfuðborgarsvæðinu um áskoranir er tengjast meiri ásókn. Sem dæmi eru klúbbarnir farnir að eiga í vandræðum með að sinna viðhaldi og  umhirðu á vellinum vegna álags, því sérstaklega er orðið þétt setið á völlum snemma dags. Meðlimir eru einnig farnir að eiga erfiðara með að fá rástíma, en það var þó ánægjulegt að sjá góð viðbrögð meðlima við 2 klst. tímamörkum  fyrir afskráningu sem gaf á endanum betri nýtingu á rástímum síðasta sumar.

Við í stjórninni viljum leggja áherslu á opið samtal um aðgengi og nýtingu á völlunum okkar og viljum hvetja ykkur til að koma með tillögur og athugasemdir sem gætu gert samveru í félagsskapnum okkar enn ánægjulegri. Endilega látið í ykkur heyra í athugasemdakerfinu og fáum uppbyggilega umræðu í gang.

Gleðilegt nýtt ár.

f.h. stjórnar Keilis.

Guðmundur Örn Óskarsson.

 

Deildu þessu á þína samfélagsmiðla!

Aðrar fréttir

  • 09/04/2025
    Það styttist í opnun golfvalla
  • 03/04/2025
    Vorkveðja frá Hrefnu og veitingasölunni
  • 24/03/2025
    Allir græða á virku foreldrastarfi
  • 26/02/2025
    Óliver flottur á Tommy Fleetwood International: Bætingar á hverjum degi
  • 17/02/2025
    Unnið hörðum höndum í kapp við tímann
  • 30/01/2025
    Héraðsdómaranámskeið GSÍ