Við Keilisfélagar minnumst Baldvins Jóhannssonar af miklum hlýhug. Honum fylgir hafsjór af hlýjum minningum um góða tíma, hlátur og söng og þá ekki síður um sterkar skoðanir á öllu sem viðkom okkur hér í Keili og á hinu pólitíska sviði.
Balli kynntist golfinu þegar hann starfaði enn við járnabindingar og tók hann golfið föstum tökum svo að segja frá fyrsta degi. Oft lagði hann það á sig að ljúka 18 holum áður enn vinnudagurinn hófst við járnabindingarnar. Enda lét árangurinn ekki á sér standa og Balli náði þeim merka árangri að leika fyrir landslið Íslands í flokki 50 ára og eldri þó svo að hann hafi byrjað í golfi frekar seint á lífsleiðinni.
Hann var einarður stuðningsmaður keppnisfólks Keilis og lagði á sig mikil ferðalög til að fylgja því eftir á keppnisferðum. Hann sýndi einlægan áhuga á öllu sem því sem um var að vera enda meðvitaður um það af eigin reynslu hversu mikinn dugnað og elju þarf til að ná árangri í íþróttum. Þann stuðning vildi hann veita og þekkti mikilvægi þess.
Balli starfaði sem vallarstjóri hjá Keili í eitt ár en hvarf svo á braut og hóf störf sem staðarhaldari í Ráðherrabústaðnum og síðar sem vaktmaður í stjórnarráðinu.
Eftir 67 ára aldur sneri Balli aftur til starfa hjá Keili og þá við útræsingu og eftirlit á golfvellinum. Ásamt því hélt hann utan um kaffiveitingarnar og golfskálann á veturna og má segja að öflugt vetrarstarf hafi verið honum að þakka.
Baldvin var fyrst og fremst Keilismaður með stórt Keilishjarta. Við kveðjum hann með miklum söknuði, þökkum fyrir allt hans framlag til Keilis og vottum aðstandendum hans okkar dýpstu samúð.
Fyrir hönd stjórnar og félagsmanna Golfklúbbsins Keilis
Ólafur Þór Ágústsson
framkvæmdastjóri Keilis