Við Keilisfélagar minnumst Sigurbergs Sveinssonar fyrst og fremst af hlýhug og virðingu en einnig með miklu þakklæti fyrir það óeigingjarna starf sem hann vann fyrir Keili.
Sigurbergur var í framvarðarsveit ungra stofnenda Keilis og barðist ötullega fyrir tilvist golfvallar á Hvaleyrinni strax á upphafsárum klúbbsins. Sigurbergur átti hugmyndina að þeim möguleika að fá Hvaleyrina undir golfvöll og var frumkvöðull í viðræðum við landeigendur og bæjaryfirvöld um þá hugmynd. Við getum þakkað hans mikla drifkrafti og áræðni að Golfklúbburinn Keilir er í fremstu röð golfvalla á Íslandi á þessu einstaka landi sem Hvaleyrin er.
Aldrei dvínaði áhugi Sigurbergs á starfsemi Keilis og hefur hann og fjölskylda hans verið meðal öflugustu fylgjenda og stuðningsaðila Keilis allt frá stofnun félagsins. Ávallt var hann tilbúinn að koma að og styðja við hin ýmsu verkefni sem þarf að leysa í stóru félagi. Sigurbergur var sérstakur áhugamaður um barna og unglingastarf klúbbsins og hefur reynst okkur ómetanlegur þegar kemur að efla og styðja við það starf í gegnum árin. Hann var einlægur Keilismaður og andi hans mun fylgja starfseminni um ókomna tíð.
Til að félag eins og Golfklúbburinn Keilir vaxi og dafni þá þarf öfluga stofnfélaga til að tryggja þær undirstöður sem félagið hefur svo notið að góðs af í gegnum tíðina. Við vorum svo heppin að Sigurbergur ásamt góðum hópi félaga ákvað í upphafi að leggja Keili lið og nú njótum við afraksturs starfa hans og stuðnings um ókomna tíð.
Um leið og við kveðjum góðan félaga með einlægri þökk vottum við aðstandendum okkar dýpstu samúð.
Fyrir hönd stjórnar og félagsmanna Golfklúbbsins Keilis
Ólafur þór Ágústsson
Framkvæmdastjóri Keilis