Kæru Keilisfélagar,
Nú þegar starfsárið 2024 er að líða undir lok vil ég þakka ykkur öllum fyrir frábært samstarf og þátttöku í starfi Golfklúbbsins Keilis.
Þegar golftímabilið hófst var lokið við endurbætur á Hvaleyrarvelli, sem hafa í heildina gjörbreytt Hvaleyrarhluta vallarins til muna. Þessar breytingar hafa þegar skilað sér í betri upplifun fyrir kylfinga og styrkt stöðu vallarins sem einn sá besti á landinu. Rekstur klúbbsins þetta árið gekk vel og er í góðum höndum framkvæmdastjóra og starfsmanna, en nánari upplýsingar um reksturinn verða kynntar á aðalfundinum.
Þessa dagana stendur yfir hin árlega skoðanakönnun sem ég hvet ykkur öll að svara. Mikilvægt er að heyra ykkar álit á vellinum okkar og öðrum hlutum sem snúa að þjónustunni, m.a. tilrauninni sem var gerð með rástímaskráningu. (Ath. tölvupóstinn ykkar, könnunin kemur frá kasmir@kasmir.isviaSurveyMonkey)
Á næsta ári, 2025, mun Íslandsmót Golfsambands Íslands fara fram á Hvaleyrarvelli, en síðast var það haldið hjá okkur árið 2017. Þetta er einstakt tækifæri fyrir klúbbinn okkar til að leggja sitt af mörkum til eflingar golfíþróttarinnar á landsvísu. Til að tryggja að mótið verði sem best þurfum við á fjölda sjálfboðaliða að halda. Ég hvet félagsmenn til að bjóða fram krafta sína og leggja sitt af mörkum til að gera þetta að stórkostlegu Íslandsmóti.
Aðalfundur þessa árs verður haldinn þriðjudaginn 3. desember næstkomandi kl. 19:30 í golfskála Keilis. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf eins og kosning formans og þriggja stjórnarliða. Ég gef kost á mér til áframhaldandi formennsku og óska eftir stuðningi ykkar. Ellý Erlingsdóttir, sem hefur setið í stjórn Keilis um árabil, hefur ákveðið að láta af störfum og vil ég þakka henni kærlega fyrir ómælt vinnuframlag á undanförnum árum. Við þurfum í það minnsta að fylla lausa sætið með konu til að standast jafnræðiskröfur sem gerðar eru til okkar og vil ég því hvetja konur til að bjóða sig fram.
Ég óska eftir að sem flestir félagsmenn mæti á fundinn, taka þátt í umræðum og hafa áhrif á framtíð klúbbsins. Þátttaka ykkar skiptir sköpum fyrir áframhaldandi vöxt og velgengni klúbbsins. Saman getum við haldið áfram að byggja upp sterkt og öflugt samfélag golfáhugafólks í Hafnarfirði.
Með bestu kveðju,
Guðmundur Örn Óskarsson,
Formaður Golfklúbbsins Keilis