Kæru félagsmenn

Eins og fram hefur komið á miðlum Keilis hafa kylfingar Keilis verið að standa sig vel í sumar. Fjallað hefur verið um sigra og verðlaunasæti í mörgum mótum frá yngstu aldursflokkum sem keppt er í upp í þá elstu. Þá hafa enn fleiri náð miklum framförum. Veðrátta “sumarsins” hafði lítil áhrif á þessa kylfinga sem æfðu sig og spiluðu við allar aðstæður í gegnum súrt og sætt frá morgni til kvölds.

Sjálfur fagna ég því í hvert skipti sem kylfingar mæta í mót, keppa og gera sitt besta. Hvort sem kylfingar nái sínum hátt settum markmiðum eða upplifi á nýjan og gamlan hátt hvernig golf er erfitt, þá er að mínu mati keppnin og innlögnin í hinn margumtalaða reynslubanka alltaf fagnaðarerindi.

Í sumar fékk ég að eyða miklum tíma með keppnis kylfingum Keilis og þar sem ég fagnaði oft, bæði upphátt og í hljóði á meðan þeir gengu í gegnum mismunandi reynslur á golfvellinum. Í svokölluðu hámhorfi fékk ég að fylgjast með kylfingunum okkar í Sveitakeppnum, Íslandsmótum, Evrópumóti, stigamótum í barna, unglinga og meistaraflokkum, æfingahringjum og óteljandi spilaæfingum.

Af öllum þeim titlum, verðlaunum, framförum og lærdómum sem ég varð vitni að hjá kylfingunum okkar þá er liðsandinn innan Keilis sem hrífur mig mest. Samfögnuðurinn þegar vel tekst, stuðningurinn sem er sýndur þeim sem eiga erfiða hringi og forvitnin, áhuginn og hvatningin sem hinn almenni meðlimur sýnir keppnis kylfingunum okkar eru það sem gera mig stoltastan sem Keilismann.

Takk fyrir sumarið, takk fyrir stuðningin og áfram Keilir.

Birgir Björn Magnússon

Afreksþjálfari Keilis