Margir keppnis kylfingar Keilis voru í eldlínuni um helgina. Atvinnukylfingarnir okkar Axel og Guðrún Brá kepptu bæði á Áskorendamótaröð Evrópu og margir af okkar bestu kylfingum tóku þátt í Hvaleyrarbikarnum, en það var lokamótið á Mótaröð Þeirra Bestu þetta árið.
Axel Bóasson spilaði í Skotlandi á Farmfoods Scottish Challange og lenti þar jafn í 52 sæti eftir að ná niðurskurðinum örugglega. Með þessu móti fór Axel upp um 17 sæti á stigalista mótaraðarinnar og situr nú í 182 sæti.Þá spilaði Guðrún Brá Björgvinsdóttir í Ahlsell Trophy í Svíþjóð en hún endaði jöfn í 35. sæti, en Guðrún spilaði -4 á öðrum hringnum sínum þar sem hún fékk 7 fugla. Eftir mótið er Guðrún á 41. sæti á LET Access stigalistanum.
Í Hvaleyrarbikarnum náðu Keilismenn að koma sér nálægt toppinum með góðri spilamennsku á loka deginum. Í karlaflokki enduðu Daníel Ísak og Birgir Björn jafnir í sjötta sæti, einungis 4 höggum á eftir efstu mönnum en Daníel spilaði á -4 á þriðja hringnum sem var lægsta skor dagsins “markmiðið á lokahringnum var að spila hraunið á parinu eða betra af því að ég var búinn að spila frekar illa á fyrri en vel á seinni í mótinu. Ég ákvað að vera ekki hræddur að gera mistök og þegar völlurinn reyndi að refsa mér á seinni þá var ég bara búinn að sætta mig við það. Ég var til dæmis í erfiðari stöðu á 12 og 13 og þar vildi ég bara gefa mér færi á að fara upp og niður og ef það tókst ekki þá var ég löngu buinn að sætta mig við það. En það tókst sem var frábært”.
Af Keiliskonunum var það Marianna Ulriksen sem var efst en hún endaði jöfn í 10. sæti í mótinu en þetta er fyrsta skipti sem Marianna hefur náð top 10 á Mótaröð Þeirra Bestu. “Ég lenti stundum í smá vandræðum eftir nokkur teighögg um en það reddaðist samt sem áður alltaf og mér fannst ég vera að slá og spila nokkuð stöðugt. Það sem ég lærði í þessu móti er að gefast ekki upp eða missa haus ef eitt eða tvö högg voru léleg. Alltaf hægt að bæta það á hringnum og koma til baka á öðrum holum”. Alltaf gaman að sjá þegar dugnaður margra ára fer að skila sér eins og hjá Mariönnu um helgina!
Næstu helgi eru það unglingarnir okkar sem fá að láta ljós sitt skína en þá fer fram Íslandsmót Unglinga í Höggleik á Hlíðarvelli í Mosfellsbæ.