Á nýafstöðnum formannafundi GSÍ var tilkynnt að Golfklúbbnum Keili hlotnast sá heiður að fá umhverfisverðlaun Golfsambands Íslands fyrir framúrskarandi framlag sitt til umhverfisverndar og sjálfbærni í starfsemi sinni. Er þetta í annað sinn sem Keilir fær þessa viðurkenningu enn byrjað var að afhenda verðlaunin 2021.
Verðlaunin voru afhent á Formannafundi sambandsins, þar sem GSÍ viðurkenndi störf Keilis við að draga úr umhverfisáhrifum og stuðla að sjálfbærri starfsemi. Keilir hefur innleitt ýmsar umhverfisvænar aðgerðir, þar á meðal þá hefur orku- og auðlindanotkun dregist saman með markvissari hönnun og þar með minna flatarmáli sleginna grassvæða á Hvaleyrarhluta golfvallarins. Sú breyting skilar sér jafnframt í auknu verðmæti svæðisins á vettvangi líffræðilegs fjölbreytileika. Mörg þeirra verkefna sem hafa lagt grunninn að verðlaununum hefur Keilir unnið með stuðningi Hafnarfjarðarbæjar. Einnig höfum við unnið náið með fyrirtækjum á svæðinu en Hvaleyrarvöllur er vökvaður með kælivatni frá álverinu í Straumsvík
„Þetta er mikill heiður fyrir okkur,“ sagði Ólafur Þór Ágústsson, framkvæmdastjóri. „Umhverfisvernd er grunnstoð í starfsemi okkar og þessi viðurkenning styrkir og hvetur okkur til að halda áfram að bæta okkur á þeirri vegferð.“
Einhugur er á meðal starfsfólks Keilis að gera betur og vera ávallt í fremstu röð með styrkri stjórn vallarstjórana okkar.