Hvaleyrarvöllur var valinn á meðal fimmtán bestu golfvalla Norðurlandanna af golftímaritinu Golf Digest.

Hvaleyrarvöllur - Yfirlitsmynd

Hvaleyrarvöllur hefur um árabil þótt einn allra fremsti golfvöllur Íslands og hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar því til staðfestingar. Sumarið 2017 voru þrjár nýjar brautir teknar í notkun á Hvaleyrinni í stað eldri brauta. Tókust breytingarnar afar vel upp en fyrst var keppt á þeim á Íslandsmótinu í höggleik 2017.

Fyrri 9 holur vallarins, Hraunið, eru lagðar í hraunbreiðu sem getur reynst kylfingum afar erfið viðureignar missi þeir boltann út af brautum.

Seinni 9 holur vallarins, Hvaleyrin, er af ætt links-golfvalla þar sem sjórinn og djúpar sandglompur koma mikið við sögu.

Smelltu hér til að skoða vallarvísi Hvaleyrarvallar.

Hraunið – fyrri 9

Alfaraleið – par 5

Brautin er hæðótt og býður upp á ýmsar niðurkomur og legur. Kletturinn sem skagar inn í brautina getur haft áhrif á teighöggið. Betra að halda boltanum vinstra megin. Flötin er frekar lítil og því mikilvægt að hitta hana í innáhöggi.

Hvítir 516 metrar
Gulir 478 metrar
Bláir 464 metrar
Rauðir 439 metrar

Klapparhóll

Þessi braut er stutt og liggur í lykkju í kringum hraunklett sem getur truflað teighöggið. Nauðsynlegt er að koma teighögginu á braut og óvitlaust að slá með járnkylfu af þessum teig. Ekki er þó allt kálið sopið efitr gott teighögg því mjög erfitt er að hitta flötina sem er handan við “sprunguna” svokölluðu. Aftan við flötina er grashóll en þess utan er hraunið.

Hvítir 343 metrar
Gulir 318 metrar
Bláir 313 metrar
Rauðir 247 metrar

Háanef

Brautin er stutt en þröng og mikilvægt er að ná beinu teighöggi. Flötin er falin innan um háa hraunskorpuna og er á þremur stöllum. Hraunið liggur alveg upp að flatarkantinum að aftanverðu en flötin er nokkuð opin ef komið er að henni frá hægri. Oft þurfa kylfingar að slá blint inn á þessa flöt og nauðsynlegt er að boltinn stöðvist sem fyrst eftir niðurkomuna á flötina.

Hvítir 259 metrar
Gulir 250 metrar
Bláir 250 metrar
Rauðir 205 metrar

Varðan

Fjórða holan er nokkuð erfið par þrjú hola og hér eru kylfingar eins fjarri klúbbhúsinu og komist verður í “Hrauninu”. Hættur eru ekki miklar á þessari holu nema helst fyrir aftan flötina og hægra megin við hana. Flötin er nokkuð stór og ætti að vera aðgengilegt að stöðva boltann á henni. Á þessari holu getur því skorið fyrst og fremst verið undir púttunum komið.

Hvítir 154 metrar
Gulir 139 metrar
Bláir 128 metrar
Rauðir 118 metrar

Bugðan

Hér þarf teighöggið að fljúga yfir mikla hraunbreiðu og lenda á braut sem hallar frá hægri til vinstri. Löng teighögg eiga á hættu að fara yfir brautina vinstra megin og út í hraun en þó er þar örlítill röffkantur og stöðvast boltinn þar gjarnan. Hraunið er hægra megin brautarinnar og ef kylfingar vilja komast klakklaust inn á flötina er nauðsynlegt að halda sig á braut. Flötin er stór og mikil brekka vinstra megin á henni. Rétt er að forðast að vera of langur í innáhögginu.

Hvítir 411 metrar
Gulir 359 metrar
Bláir 344 metrar
Rauðir 282 metrar

Gjótan

Falleg par þrjú hola sem lætur engan ósnortinn. Flötin sést aðeins að hluta til frá teignum þar sem að hátt hraunið skyggir á. Örlítil braut liggur vinstra megin með hrauninu en ef teighöggið á að fara á flötina þarf að slá hátt og hnitmiðað högg sem stöðvast fljótt. Það hjálpar þó til að flötin hallar örlítið frá teignum. Hraunið liggur nálægt flötinni hægra megin og fyrir aftan og geta “slæsarar” því átt í erfiðleikum með hana þessa.

Hvítir 139 metrar
Gulir 128 metrar
Bláir 118 metrar
Rauðir 110 metrar

Grænaskjól

Mikið landslag er í þessari braut og gríðarlega stór dalur er í grennd við lendingarsvæði flestra teighögga oft nefndur “dauðadalurinn”. Brautin liggur í hundslöpp til hægri en innkoman á flötina er í nokkurs konar vinkil til vinstri. Brautin er mjög breið þar sem teighöggin lenda en ef vel á vera þarf annað höggið að fljúga yfir hraunið og lenda þvert á nokkuð þrönga brautina eða inn á flötina. Þessa glæsilegu stóru flöt er þó nauðsynlegt að nálgast með gát því hraunið er skammt utan hennar.

Hvítir 466 metrar
Gulir 424 metrar
Bláir 415 metrar
Rauðir 358 metrar

Selstígur

Á áttundi holunni í “Hrauninu” leynast hætturnar fyrst og fremst í kringum flötina og flötin sjálf er ein sú erfiðasta á vellinum. Brautin er nokkuð breið og beggja megin hennar er röffkantur sem stöðvar bolta sem eru á leið í hraunið. Gott er að halda sig hægra megin í teighögginu því innáhöggið er oft þægilegra þaðan. Í kringum flötina er nánast engin braut eða röff, aðeins bert hraunið. Þrír stallar eru á flötinni og talsvert landslag.

Hvítir 346 metrar
Gulir 307 metrar
Bláir 293 metrar
Rauðir 281 metrar

Þvottaklettar

Brautin er nokkuð breið en betra er að vera vinstra megin því kletturinn hægra megin getur verið til trafala ef menn ætla inná flöt í tveimur höggum. Tjörnin, með tignarlegum gosbrunninum fyrir framan geysistóra flötina, kemr kylfingum fyrir sjónir sem bæði falleg og ógnvekjandi. Innáhöggið þarf því að vanda vel svo það lendi á góðum stað á flötinni. Betra er að vera of langur en of stuttur. Á flötinni eru tveir stallar en fyrir utan tjörnina eru ekki miklar hættur umhverfis flötina.

Hvítir 398 metrar
Gulir 357 metrar
Bláir 330 metrar
Rauðir 267 metrar

Hvaleyrin – seinni 9

Sandvík – par 3

Miklar breytingar á 10. flötinni hafa gert þessa holu eina af skemmtilegustu og fallegustu holum landsins. Flötin, sem er gríðarlega stór, er vel varin af djúpum glompum fyrir framan og hægra megin við flötina. Að auki eru vallarmörkin sem fyrr til vinstri. Ef leikmaður hittir flötina þá er eftirleikurinn langt frá því að vera auðveldur., því mikill halli skiptir henni í miðjunni, sem gerir púttið mun erfiðara. Par er alltaf þegið fegins hendi.

Hvítir 183 metrar
Gulir 164 metrar
Bláir 154 metrar
Rauðir 130 metrar

Sandbrekkur – par 4

Brautin er í hundslöpp til vinstri og fremur mjó og hallar öll frá hægri til vinstri í átt að vallarmörkunum. Betra er að vera hægra megin í teighögginu en þó ekki of mikið því röffið er erfitt. Fyrir högglengri spilara eru tvær glompur hægra megin brautar ógnandi. Vinstra megin er hættulegt röff með mikið af stórgrýti. Flötin er nokkuð djúp og umsetin þremur mjög erfiðum glompum. Handan flatarinnar er brött brekka sem endar utan vallar svo ekki er gott að vera of sterkur í innáhögginu.

Hvítir 312 metrar
Gulir 294 metrar
Bláir 288 metrar
Rauðir 268 metrar

Hafnarbrekkur – par 4

Brautin hallar öll frá vinstri til hægri. Mjög erfitt er að staðsetja teighöggið á braut. Betra er að vera vinstra megin í teighögginu því hægra megin við brautina er mikil brekka. Brautarglompa vinstra megin getur þó sett strik í reikninginn en margir spilarar geta þó slegið yfir hana á góðum degi. Nokkur hæðarmunur er á brautinni og flötinni sem er nokkuð stór og slétt. Í kringum flötina er brekka niður á við og því oft betra að fara varlega í innáskoti og láta boltann rúlla inná flötina.

Hvítir 330 metrar
Gulir 322 metrar
Bláir 316 metrar
Rauðir 273 metrar

Ný hola – par 4

Ný hola.

Hvítir 310 metrar
Gulir 292 metrar
Bláir 277 metrar
Rauðir 241 metrar

Ný hola – par 4

Ný hola

Hvítir 421 metrar
Gulir 351 metrar
Bláir 328 metrar
Rauðir 274 metrar

Yfir hafið og heim – par 3

Ný hola.

Hvítir 190 metrar
Gulir 139 metrar
Bláir 127 metrar
Rauðir 108 metrar

Fúla – par 5

Brautin er löng og í örlitla hundslöpp frá vinstri til hægri en högglangir geta þó náð inn á flöt í tveimur höggum. Hægra megin brautarinnar ráðast vallarmörkin af Sjávarbökkum. Vinstra megin við brautina í grennd við lendingarsvæði teighöggana eru fjórar brautarglompur. Um hundrað metrum fyrir framan flötina eru fjórar litlar glompur sem ber að varast og í kringum flötina sjálfa eru þrjár glompur til viðbótar. Flötin sjálf er í meðallagi stór og liggur mjög nærri vallarmörkunum.

Hvítir 447 metrar
Gulir 433 metrar
Bláir 420 metrar
Rauðir 348 metrar

Flókabraut – par 4

Brautin liggur í hundslöpp frá hægri til vinstri og teighöggið þarf að slá blint yfir hæð þar sem við tekur breið brautin. Vinstra megin brautarinnar er þungt röff sem gerir þeim erfitt fyrir sem reyna að stytta sér leið inn á flötina. Flötin er geysistór en umkringd glompum og hægra megin er gamall steyptur skúr sem getur truflað innáhögg og vipp. Innáhöggið þarf að vera vel framkvæmt ef komast á nærri hlunni en þegar til kastanna kemur eru það púttin sem skipta mestu.

Hvítir 290 metrar
Gulir 285 metrar
Bláir 250 metrar
Rauðir 250 metrar

Sælakot

Þetta er löng par fjögur hola en brautin er nokkuð bein alla leið en hallar frá hægri til vinstri þar sem lendingarsvæði teighöggana er. Glompa er í röffinu hægra megin og því þjóðráð að halda sig vinstra megin í teighögginu. Gamli garðurinn við veginn framan við flötina er hættulegur. Flötin er stór á tveimur stöllum og hægra megin við hana er brött brekka sem í eru þrjár mannhæðadjúpar glompur. Við aftanverða flötina er enginn braut og liggja grónar klappir upp að flatarkantinum. Vallarmörk eru svo aðeins örfáa metra aftan við og hægra megin við flötina og markast af göngustíg sem þar liggur.

Hvítir 398 metrar
Gulir 350 metrar
Bláir 340 metrar
Rauðir 288 metrar