Félagsstarf er sérstakt að því leyti að það byggir fyrst og fremst á framlagi þeirra sem félagið skipa. Framlagið getur verið með ýmsum hætti og yfirleitt er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvað hann leggur af mörkum. Samferð Golfklúbbsins Keilis og Guðlaugs Gíslasonar er afar gott dæmi um það hvernig félagsstarf eflist, þróast og dafnar af framlagi félagsmanns og ber ríkulegan ávöxt. Og þess skal getið að þegar Guðlaugur gekk í Keili fylgdi öll fjölskyldan með en það er einmitt afar dýrmætt að þeir sem veljast til krefjandi félagsstarfa eigi dyggan stuðning til þess vísan heima fyrir.
Guðlaugur var afar umhyggjusamur fyrir velferð Keilis. Hann hafði sterka framtíðarsýn og gríðarlegan metnað fyrir félagsstarfinu og fyrir framgangi, árangri og velferð félagsfólks í klúbbnum. Hann bauð sig fram til formennsku 1986-1990 og lagði þegar áherslu á að gera Keili að afreksklúbbi. Má segja að það hafi að ýmsu leyti orðið straumhvörf þegar Guðlaugur varð formaður klúbbsins. Meðal áherslumála hans voru að Keilir færi inn í Íþróttabandalag Hafnarfjarðar og hann réð Ágúst Húbertsson sem framkvæmdastjóra sem reyndist mikið heillaspor fyrir framtíð félagsins. Guðlaugur kom því einnig til leiðar að nýr golfskáli yrði byggður á Hvaleyri og höfum við notið þeirrar framsýni hans nú um langa hríð og munum gera áfram um ókomna tíð.
Eins og fram hefur komið bar Guðlaugur hag félagsins og félagsfólks fyrir brjósti, hann var glöggur á fólk og staðhætti og komu mannkostir hans og reynsla úr starfi lögreglumannsins sér án efa vel í forystuhlutverkinu. Alúð Guðlaugs við samferðarfólk sitt í Keili birtist seinni árin einna best í umsjón hans með kaffiklúbbi félagsins. Alltaf var hann mættur fyrstur og sá til þess að heitur sopinn biði þeirra sem vildu þiggja. Við í Keili stöndum í mikilli þakkarskuld við Guðlaug Gíslason.
Hans verður sárt saknað og við sendum fjölskyldu hans okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd stjórnar og félaga í Golfklúbbnum Keili, Sveinn Sigurbergsson