Golfklúbburinn Keilir náði nýlega þýðingarmiklum áfanga í starfi sínu með annarri endurnýjun GEO Certified-sjálfbærnivottunar, sem klúbburinn hlaut fyrst fyrir áratug. Vottunin er á vegum GEO Foundation, sem er aðili að alþjóðlegu ISEAL-samstarfi umhverfis- og sjálfbærnimerkja auk þess að vinna með UNEP, umhverfisverndaráætlun Sameinuðu þjóðanna.

Vottunin er afrakstur mikillar vinnu þar sem skoðaðir eru fjölmargir þættir í starfsemi golfklúbba og valla, eins og umhverfisáhrif og atvinnusköpun auk íþrótta- og æskulýðsstarfs.

“Keilir hefur lagt áherslu á að vera áfram í fararbroddi íslenskra golfklúbba á þessum vettvangi,” segir Ólafur Þór Ágústsson framkvæmdastjóri. “Meðal nýlegra framfara hvað það varðar eru áframhaldandi orkuskipti með innleiðingu rafknúinna umhirðutækja í stað þeirra sem knúin eru jarðefnaeldsneyti. Einnig hefur aðstaða starfsfólks tekið stakkaskiptum,” bætir Ólafur við.

Þá hefur orku- og auðlindanotkun dregist saman með markvissari hönnun og þar með minna flatarmáli sleginna grassvæða á Hvaleyrarhluta golfvallarins. “Sú breyting skilar sér jafnframt í auknu verðmæti svæðisins á vettvangi líffræðilegs fjölbreytileika, sem ríkari áhersla hefur verið lögð á að undanförnu á heimsvísu,” segir Guðbjartur Ísak Ásgeirsson, sem er vallarstjóri ásamt Hauki Jónssyni. “Við heyrum samt ekki marga í kringum okkur tala um þetta. Við viljum samt stíga þessi skref, því okkur finnst einfaldlega uppbyggilegra og meira varið í að vinna með þessum hætti,” segir Haukur.

GEO Foundation veitti Keili upphaflega vottun fyrir um tíu árum, með þeim orðum að þar færu “frjáls félagasamtök, sem halda úti íþrótta- og útivistarsvæði í hjarta blómlegrar byggðar, þar sem hægt er að stunda golf sem almenningsíþrótt og njóta um leið samlegðaráhrifa á vettvangi ferðaþjónustu, umhverfis- og loftslagsmála, útivistar, grænna svæða og lýðheilsu, auk íþrótta- og æskulýðsstarfs.” Einnig að félagið noti endurnýjanlega orkugjafa í auknum mæli, hafi af hugvitssemi nýtt gamlar byggingar með nýstárlegum hætti og varðveitt menningarminjar.

“Mörg þeirra verkefna sem hafa lagt grunninn að vottuninni hefur Keilir unnið með stuðningi Hafnarfjarðarbæjar. Einnig höfum við unnið náið með fyrirtækjum á svæðinu,” segir Ólafur Þór, en Hvaleyrarvöllur er vökvaður með kælivatni frá álverinu í Straumsvík, sem annars rynni til sjávar. “Slíkt er aðeins eitt af fjölmörgun dæmum um þá virðingu sem við viljum sýna náttúru okkar og þann vilja sem ég tel að við höfum sýnt til að taka þátt í að byggja upp gott samfélag og umhverfi sem við óskum eftir að starfa í. Við erum hvergi nærri hætt. Starfið er í stöðugri þróun,” segir Ólafur Þór Ágústsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Keilis.