Glæsileg skor litu dagsins ljós á fyrsta keppnisdegi Hvaleyrarbikarsins hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði í dag.
Efstu kylfingar í bæði karla- og kvennaflokki fóru langt undir 70 höggin í veðurblíðunni á Hvaleyrarvelli en mótið er næstsíðasta stigamótið á mótaröð GSÍ. Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar lék á 64 höggum og er á sjö höggum undir pari vallarins.
Kristján er þrautreyndur landsliðsmaður og hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari í golfi. Karlarnir hófu leik á 10. teig og Kristján paraði fyrstu sex holurnar. Rann þá einhvers konar æði á Kristján sem fékk fugla á sex af næstu sjö holum og sjö fugla á níu holum. Ekki oft sem slíkar rispur sjást í mótum á Íslandi. Lék hann fyrri níu holur vallarins á 31 höggi sem voru sem sagt síðari níu hjá honum í dag.
Hann hefur þó aðeins eitt högg í forskot á Gunnlaug Árna Sveinsson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Gunnlaugur fékk fugla á fimm holum í röð og þar af á fjórum fyrstu holunum í Hrauninu rétt eins og Kristján. Þar á eftir koma þrír kylfingar á 67 höggum og þeirra á meðal Íslandsmeistarinn Logi Sigurðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja. Andri Þór Björnsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Guðjón Frans Halldórsson GKG eru á sama skori.
Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG er með gott forskot eftir að hafa leikið á 66 höggum. Fékk hún sex fugla og einn skolla á hringnum en Hulda varð Íslandsmeistari árið 2021. Hulda lék einnig vel í hrauninu eða fyrri hluta vallarins. Var hún á 33 höggum eftir fyrri níu holurnar og fékk þrjá fugla í röð á 3. – 5. holu.
Íslandsmeistarinn frá því í fyrra Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR er önnur á 71 höggi eða parinu og Berglind Björnsdóttir einnig úr GR er á 72 höggum.
Fleiri gerðu góða hluti á Hvaleyrinni í dag en efstu kylfingarnir því Nína Margrét Valtýsdóttir úr GR sló draumahöggið þegar hún fór holu í höggi á 6. holu Hvaleyrarvallar.