Íslandsmeistarinn í golfi Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG sigraði í Hvaleyrarbikarnum annað árið í röð en keppni lauk í dag. Hún virðist eiga í góðu sambandi við Hvaleyrarvöllinn.

„Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það en ég fíla mig alla vega vel hérna. Vonandi held ég áfram að spila vel hérna því hér verður Íslandsmótið haldið á næsta ári,“ sagði Hulda að lokinni keppni í dag og glotti. „Völlurinn er skemmtilegur og er á topp 5 yfir mína uppáhaldsvelli. Hann er krefjandi og maður þarf að hugsa um hvert högg. Völlurinn er í geggjuðu standi og þetta var því mjög skemmtileg helgi.“

Hulda lék á 76, 73 og 76 höggum en spilamennskan á öðrum degi kom henni í efsta sætið. „Ég myndi segja að púttin hafi verið mikilvæg fyrir mig á heildina litið í mótinu. Pútt inn fyrir þrjá metra rötuðu rétta leið en þar geta höggin verið fljót að telja ef maður finnur sig ekki á flötunum.“

Spurð um breytingarnar á seinni níu holum vallarins segist Hulda vera hrifin af nýju og nýlegu brautunum.

„Mér finnst völlurinn vera orðinn mjög fallegur. Til dæmis er mjög fallegt að horfa yfir nýju 16. brautina. Einnig er 17. holan mjög krefjandi vegna þess að þar eru vallarmörk vinstra megin við flötina. Þar þarf maður að fara varlega en það er skemmtileg hola,“ sagði Hulda og bætti því við að eitt af því sem geri Hvaleyrarvöll áhugaverðan sé hversu ólíkar fyrri og seinni níu holurnar séu.