12/08/2024

Berglind óskar Keili til hamingju

Berglind óskar Keili til hamingju

Hafði slegið draumahöggið með ekkert vitni

Berglind Björnsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur sló draumahöggið í Hvaleyrarbikarnum í Hafnarfirði um helgina og er á leið í Einherjaklúbbinn svokallaða. Berglind fór holu í höggi á 12. holu sem er krefjandi en falleg hola, ekki síst af meistaraflokksteigum.

„Pinninn var vinstra megin við miðju og frekar aftarlega. Það var smá mótvindur og ég var ákveðin í að halda mig aðeins vinstra megin við holuna ásamt því að taka nógu mikla kylfu til að boltinn myndi lenda fyrir ofan. Boltinn lenti rétt við holuna vinstra megin við og rúllaði örlítið áfram og upp bakkann sem er aftast á flötinni. Þá fór hann aðeins til hægri og kemur svo til baka að holunni. Við horfðum á þetta frá teignum og veltum fyrir okkur hvort boltinn væri á leiðinni í holu. Það tók smá tíma en svo datt hann loksins og það var ótrúleg tilfinning. Æðislegt,“ segir Berglind en sem segist hafa slegið með 6 járni og tekið létt á því.

Eftir langan feril í keppnisgolfi gat Berglind fagnað því að fara holu í höggi í fyrsta skipti í móti en hún hefur hins vegar lent í þeirri ógæfu að slá draumahöggið með ekkert vitni.

„Ég lék eitt sinn æfingahring í Grafarholti og fór holu í höggi á 2. holu en þá var ekkert vitni. Það var dálítið súrt en fyrir vikið var þetta enn sætara í þetta skiptið. Alveg geggjað. Ég hef keppt í meira en tuttugu ár og var farin að velta fyrir mér hvort ekkert yrði af þessu. Ég myndi aldrei fara holu í höggi. En að gera það svo á þessari glæsilegu holu hjá Keili er einstakt og mér þykir afar vænt um það,“ segir Berglind og hún óskar klúbbmeðlimum í Keili til hamingju með breytingarnar sem gerðar hafa verið á vellinum.

„Breytingarnar eru stórkostlegar. Ég óska Keilisfólki innilega til hamingju með glæsilegan völl. Mér finnst alveg magnað hve mikið er búið að bæta seinni níu holurnar á vellinum. Áður var ég miklu hrifnari af fyrri níu holunum á Hvaleyrarvelli en ég er ekki viss um að ég sé það lengur. Seinni níu eru alveg stórkostlegar og virkilega gaman að koma hingað.“

 

Deildu þessu á þína samfélagsmiðla!

Aðrar fréttir

  • 03/04/2025
    Vorkveðja frá Hrefnu og veitingasölunni
  • 24/03/2025
    Allir græða á virku foreldrastarfi
  • 26/02/2025
    Óliver flottur á Tommy Fleetwood International: Bætingar á hverjum degi
  • 17/02/2025
    Unnið hörðum höndum í kapp við tímann
  • 30/01/2025
    Héraðsdómaranámskeið GSÍ
  • 29/01/2025
    Bætt aðstaða í Hraunkoti