Baráttan um sigurinn í Hvalerarbikarnum í golfi harnaði verulega á öðrum keppnisdegi í dag í Hafnarfirði en mótið fer fram hjá Golfklúbbnum Keili. Framundan er mikil spenna á lokadeginum á morgun í báðum flokkum.

Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar kann vel við sig á Hvaleyrinni og náði efsta sætinu í dag af Evu Kristinsdóttur úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Eva náði sér ekki á strik og lék á 80 höggum eftir að hafa átt mjög góðan hring í gær á 70 höggum. Hulda nýtti sér það og lék á 73 höggum og bætti sig um þrjú högg milli daga. Berglind Erla Baldursdóttir einnig úr GM komst upp að hlið Evu með hring upp á 76 högg. Þær eru aðeins höggi á eftir Huldu fyrir lokahringinn og ljóst að allt getur gerst í kvennaflokknum á morgun.

Tómas Eiríksson Hjaltested úr Golfklúbbi Reykjavíkur er efstur í karlaflokki enda setti hann glæsilegt vallarmet í gær og var þá kominn sjö högg undir par. Framan af í dag virtist hann líklegur til að stinga af en rak sig á að síðari níu holurnar geta bitið frá sér á Hvaleyrinni. Tómas fékk sex fugla á fyrstu 10 holunum og var þá samtals á þrettán undir pari sem er glimrandi spilamennska eins og gefur að skilja. Eftir það fékk hann hins vegar fimm skolla og skilaði inn hring upp á 71 högg.

Hann hefur tveggja högga forskot á Jóhann Frank Halldórsson úr GR sem lék á 68 höggum í dag. Breki Gunnarsson Arndal úr GKG fór einnig undir 70 höggin og lék á 69 og er hann í þriðja sæti á þremur undir pari samtals en Tómas er á átta undir pari samtals.

Eins og í gær voru veðurguðirnir tillitssamir við kylfingana á mótaröðinni og skorið í mótinu er gott en síðari níu holurnar á Hvaleyrarvelli voru þó nokkuð erfiðar viðureignar fyrir marga. Þar hafa verið gerðar breytingar á vellinum og opnuðu tvær nýjar brautir fyrr í sumar og fleiri eru nýlegar frá undanförnum árum.

Úrslitin í mótinu ráðast á morgun og þá kemur einnig í ljós hverjir verða stigameistarar GSÍ árið 2024.

Áhugasömum er einnig bent á samfélagsmiðlana hjá Keili þar sem ýmislegt efni er að finna sem tengist Hvaleyrarbikarnum.

Smellið hér til að sjá myndir frá Hvaleyrarbikarnum