Kæri félagi.
Það var ánægjulegt að sjá góða mætingu og umræðu á aðalfundi okkar í gær. Ég þakka hvatninguna og stuðninginn sem mér hefur verið veittur á þessum tímamótum og hlakka mikið til að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið undanfarin ár með það að markmiði að bæta okkar góða félagsskap enn frekar. Mig langar til að þakka fráfarandi stjórnarfélögum þeim Guðbjörgu Guðmundsdóttur, formanni og Daða Janussyni fyrir frábæra samvinnu og óeigingjarnt framlag þeirra til okkar allra. Í þeirra stað bjóðum við tvo öfluga aðila velkomin í stjórn klúbbsins, þau Inga Tómasson og Tinnu Jóhannsdóttur, sem eiga vafalaust eftir að setja mark sitt á starfið.
Ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur ársskýrslu okkar fyrir árið 2023, en hana er hægt að finna á https://2023.keilir.is .
Á fundinum sköpuðust góðar umræður um okkar helstu áskorun síðasta sumars, þ.e. ásókn á völlinn og erfiðleika við að fá rástíma. Júlí og ágúst síðastliðið sumar voru metmánuðir, aldrei hafa verið spilaðir eins margir hringir á völlunum okkar. Ásókn og virkni félaga okkar í Keili er mikil og sýndi nýleg könnun GSÍ að félögum í Keili hafi þótt hvað erfiðast að fá hentugan rástíma í samanburði við aðra klúbba á höfuðborgarsvæðinu.
Hvað er til ráða og hverju viljum við ná fram? Golfvöllurinn er sameiginleg og takmörkuð auðlind okkar. Mér finnst mikilvægt að við sem félagsskapur tökum opið samtal um hvernig væri best að stuðla að sanngjörnum aðgangi og notkun á vellinum. Það eru margar leiðir færar og hægt að breyta. Grundvallar breytingar sem munu hafa áhrif á tekjumódel okkar munum við þó ekki gera nema með víðtæku samráði og samþykki félagsmanna.
Það bíður okkar spennandi golfsumar á næsta ári. Í vor munum við opna völlinn í endanlegri mynd eftir framkvæmdir undanfarinna ára. Völlurinn verður þá par 72 högg, með nýtt vallarmat og fáum við að leika tvær frábærar nýjar holur nr. 16 og 17. Þetta er skemmtileg breyting og ég verð að viðurkenna að ég hlakka til að spila þessar nýju holur næsta sumar.
Ég vil að lokum hvetja ykkur öll til að taka þátt í umræðunni og koma hugmyndum á framfæri.
Gleðilega aðventu og njótið hátíðanna.
Kveðja, Guðmundur.