Afreksstarf

Guðrún Brá Björgvinsdóttir hefur verið meðal fremstu kylfinga landsins í mörg ár og er ein af bestu kvenkylfingum landsins.

Aldrei áður hefur íslensk kona náð jafnt hátt á heimslistanum í golfi meðal áhugamanna og Guðrún Brá. Í dag er hún númer 112 á heimslistanum og er þar með að skrifa nýjan kafla í golfsögu Íslands með árangri sínum.

Sumarið 2017 var mjög gott hjá Guðrúnu og spilaði hún jafnt og gott golf allt sumarið. Guðrún lék bæði á Evrópumóti landsliða og einstaklinga á árinu auk þess að taka þátt í ýmsum verkefnum fyrir hönd Íslands. Hún hefur átt fast sæti í landsliði Íslands í golfi í mörg ár.

Á Íslandi hefur Guðrún Brá verið nær ósigrandi á þeim mótum sem hún hefur getað tekið þátt í og sigrað á þremur mótum og þar af tveimur mótum í röð á Eimskipsmótaröðinni.

Guðrún Brá er Íslandsmeistari í holukeppni  í ár. Í sumar setti Guðrún Brá vallarmet á heimavelli sínum á Hvaleyrinni er hún lék á 67 höggum eða á fjórum höggum undir pari. Hún endaði mótið í 2. sæti á Íslandsmótinu í höggleik.

Í ár hefur Guðrún Brá leikið mjög vel á erlendri grundu. Hún varð í 4. sæti á Evrópumóti einstaklinga og á opna breska áhugamannamótinu varð hún í 13. sæti.

Í vor vann hún sér inn þátttökurétt inn á NCAA Regionals í Bandaríska háskólagolfinu. Í haust komst Guðrún Brá áfram á 2. stig þar sem leikið er um að komast inn á Evrópumótaröðina. Það verður án efa mjög spennandi að fylgjast með henni í desember á lokastiginu til að komast inn á sterkustu mótaröð atvinnukylfinga í Evrópu.

Axel Bóasson er einn af bestu kylfingunum á Íslandi í dag. Hann leikur sem atvinnumaður í golfi á sínu öðru ári og lék á “Nordic tour” mótaröðinni í ár og stóð sig mjög vel í ár.

Árangur hans árið 2017 er einn sá besti sem atvinnukylfingur frá Íslandi hefur náð. Hann sigraði á tveimur mótum á Nordic League mótaröðinni, auk þess að ná mjög góðum árangri á öðrum mótum og varð að lokum stigameistari mótaraðarinnar.

Það er án efa eitt mesta afrek sem íslenskur kylfingur hefur náð. Aldrei áður hefur íslenskur atvinnumaður í golfi orðið stigameistari mótaraðar.

Fyrir vikið er Axel kominn með keppnisrétt á Áskorendamótaröðina í Evrópu á næsta ári.

Hér heima hefur Axel haldið áfram að leika ótrúlega flott golf í sumar. Hann er Íslandsmeistari í höggleik karla og sigraði einnig á lokamóti Eimskipsmótaraðarinnar í september.

Axel er án efa ein allra bjartasta von okkar íslendinga í golfheiminum í dag. Hann er gífurlega metnaðarfullur, yfirvegaður, alltaf bjartsýnn og jákvæður.

Team Keilir

Hjá Golfklúbbnum Keili er afreksstarf er nefnist Team Keilir, hugmyndafræði varðandi alla afreksstarfsemi hjá Golfklúbbnum Keili

SAMVINNA – TRAUST – SKIPULAG – EFTIRFYLGNI

Uppbygging afreksþjálfunar á að vera gagnrýnið, uppbyggilegt og umfram allt gagnlegt fyrir alla aðila sem að afreksstarfinu koma.

UNDIRSTÖÐUÞÆTTIR

„Golf er framkvæmd undirstöðuatriða“

  • Geta er framkvæmd undirstöðuþátta leiksins í tengslum við líkamlega-, sálfræðilega- og félagslega þætti.

LEIKFRÆÐILEGIR ÞÆTTIR

„Það eru undirstöðuatriðin sem skila árangri”

  • Leikfræðilegur árangur ræðst af leikskilningi kylfingsins og færni hans í undirstöðuþáttum leiksins.

LÍKAMLEGIR ÞÆTTIR

„Líkaminn er verkfæri íþróttamannsins”

  • Enginn kylfingur með metnað, ætti að vanmeta það að vera í góðu formi.
  • Allir ættu að sjá það í hendi sér hve mikilvægir þessir þættir eru fyrir afrekskylfinginn eða hinn almenna kylfing.

SÁLFRÆÐILEGIR ÞÆTTIR

„Eftir höfðinu stjórnast útlimirnir”

  • Áhugi – metnaður og vinnusemi er forsenda að getu og betri árangri

FÉLAGSLEGIR ÞÆTTIR

„Virðing – kurteisi – gaman”

  • Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
  • Mikilvægt er að geta sett sig í spor annarra.
  • Hafðu áhrif á aðra og umhverfi þitt.