Golfklúbburinn Keilir 50 ára – afmælisárið

Nú er að ljúka miklu afmælisári hjá okkur í Keili. Það hófst með því að í upphafi árs var skipuð afmælisnefnd og hana skipuðu Arnar Borgar Atlason, Ólafur Þór Ágústsson, Daði Janusson, Inga Magnúsdóttir og Hallgrímur Ólafsson.

Nefndin skipulagði árið og ákvað að leggja áherslu á nokkra viðburði sem framundan voru á afmælisárinu. Nefndinni fannst það skipta miklu máli að eiga tækifæri á að fagna með sem flestum og var niðurstaðan að halda opin dag fyrir bæjarbúa ásamt hefðbundinni afmælisveislu í golfskála Keilis og var það fyrsti fasi í hátíðarhöldunum.

Opni dagurinn var vel auglýstur á meðal bæjarbúa og var sent dreifibréf í allan Hafnarfjörð þar sem öllum var boðið á fjölskylduhátið í Hraunkoti þann 6. maí. Boðið var uppá ókeypis golfkennslu fyrir alla, leikir, SNAG golfkennsla og þrautir voru fyrir yngsta hópinn, þá var hoppukastalinn á svæðinu, grillaðar pylsur og “candyfloss”. Íþróttaálfurinn kom í heimsókn og skemmti ungviðinu. Það er skemmst frá því að segja að nefndin krosslagði fingur um gott veður og góða mætingu. Er 6. Maí rann upp var það fyrsti sumardagurinn á árinu, dúnalogn, sól og hiti langt yfir meðaltali árstímans. Það má því með sanni segja að frumkvöðlar Keilis og veðurguðir vöktu yfir afmælisbarninu á þessum degi. Þátttakan fór fram úr björtustu vonum og streymdi fólk á svæðið allan tímann sem svæðið var opið en yfir 250 manns sóttu okkur heim.

Án afrekshóps okkar og golfkennara hefði þetta aldrei verið hægt og eiga þau miklar þakkir skyldar fyrir gott skipulag og góða upplifun þátttakenda á opna deginum.

Á sama tíma og opni dagurinn fór fram var haldin hefðbundnari afmælisveisla þar sem stjórn, golfklúbbar, GSÍ og aðrir boðsgestir voru mættir til veislu. Einsog lög gera ráð fyrir voru afhent heiðursmerki klúbbsins í veislunni og voru þessir einstaklingar heiðraðir:

Silfurmerki

Magnús Hjörleifsson
Gunnar Þór Halldórsson
Ásgeir Jón Guðbjartsson
Daníel Rúnarsson

Brynja Þórhallsdóttir
Birgir Vestmar Björnsson
Bjarni Þór Hannesson
Kristinn Kristinsson

Már Sveinbjörnsson
Hörður Geirsson
Guðlaugur Georgsson
Steindór Eiðsson

Hörður Hinrik Arnarson
Magnús Birgisson

 

Gullmerki

Axel Bóasson
Signý Arnórsdóttir
Arnar Már Ólafsson
Guðbrandur Sigurbergsson
Hörður Þorsteinsson
Baldvin Jóhannsson (afhent á Meistaramótshófi Keilis)

  

Í tilefni þess að Meistaramót Keilis var haldið í 50. skipti var einnig lögð áhersla á sérstaklega veglegt lokahóf í nýjum og stækkuðum golfskála okkar Keilismanna, enda var afmælisnefndin vel skipuð fólki til að setja saman mikla hátið. Hallgrímur Ólafsson, sem er landsþekktur skemmtikraftur, hafði það á sínum snærum að safna saman tónlistarfólki og hlaut hann liðsinnis frá Friðriki G. Sturlusyni sálarmanni. Sett var saman hljómsveit sem samanstóð af mörgum bestu tónlistarmönnum landsins og lék hún fram á rauða nótt. Gífurlegt fjölmenni var mætt og skemmtu allir sér konunglega. Hljómsveitina skipuðu meðal annars Stefán Hilmarsson, Eyjólfur Kristjánsson, Hallgrímur Ólafsson, Eysteinn Eysteinsson, Friðrik G Sturlusson og fleiri.

Afmælisnefndin var með á sinni könnu að skipuleggja opnunarpartíý á stækkun golfvallarins og var ákveðið að bjóða félagsmönnum, starfsfólki frá öðrum golfvöllum, bæjarstjóra og bæjarstjórn til opnunarinnar. Það má segja að veðurguðirnir hafi ekki verið í jafn góðu skapi þennan daginn eins og á afmælishátiðinni þann 6. maí.

Axel Bóason lék allar brautirnar og sýndi gestum hvernig best er að leika þær ásamt því að nýji hluti vallarins var vígður með sérstökum teighöggum á hverri braut. Haraldur L Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, vígði 13. braut með því að slá fyrsta höggið, Rósa Guðbjartsdóttir, formaður Bæjarráðs, vígði 14. braut og Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, vígði 15. braut.

Þrátt fyrir frekar leiðinlegt veður, vind og sudda þá mættu fjölmargir til að vera viðstaddir vígsluna og var öllum boðið til morgunverðar eftir labbitúrinn í golfskála Keilis.

Þetta voru þeir þrír aðalatburðir sem nefndin skipulagði og er henni sérstaklega þökkuð góð störf og skipulag í kringum allt saman. 

50 ára afmælisrit Keilis

Undirbúningur að ritun sögu golfklúbbsins Keilis hófst fyrir tveimur árum síðan. Ráðin var til verksins Jóhann Guðni Reynisson og var strax ákveðið að leggja áherslu á fyrstu 10 árin.

Er þar fjallað um aðdragandann, stofnunina og starfsemina 1967-1977. Höfundurinn Jóhann Guðni Reynisson hlaut liðsinnis Magnúsar Hjörleifssonar, sem sá um myndasöfnun, og Gunnars Þórs Halldórssonar, sem braut um og hannaði útlit. Bókin var eingöngu gefin út á rafrænu formi og má nálgast hana á vef Keilis.

Það er klárt mál að þetta er einungis fyrsti kaflinn í stærri og veglegri bók sem mun spanna öll 50 ár klúbbsins en það var mat manna að gott tækifæri væri að rita þessa sögu mjög ítarlega, þar sem margir af frumkvöðlum Keilis eru enn á lífi og við góða heilsu. Jónas Aðalsteinsson fyrsti formaður Keilis reyndist ómetanleg heimild og var virkilega gaman að geta kallað saman suma af stofnendum Keilis til að ráðfæra sig við. Ákveðið var að efna til samtals við hóp stofnenda og fyrstu meðlima í klúbbnum. Inga Magnúsdótti, Sigurður Héðinsson, Jón Boði Björnsson, Jónas Aðalsteinsson, Sveinn Snorrason og Jóhann Níelsson komu saman á köldum vetradegi og áttu virkilega gott spjall og rifjuðu upp skemmmtileg atvik með höfundi bókarinnar.