Verið velkomin á Hvaleyrarvöll
Hraunið – fyrri 9
Alfaraleið
Brautin er hæðótt og býður upp á ýmsar niðurkomur og legur. Kletturinn sem skagar inn í brautina getur haft áhrif á teighöggið. Betra að halda boltanum vinstra megin. Flötin er frekar lítil og því mikilvægt að hitta hana í innáhöggi.
Klapparhóll
Þessi braut er stutt og liggur í lykkju í kringum hraunklett sem getur truflað teighöggið. Nauðsynlegt er að koma teighögginu á braut og óvitlaust að slá með járnkylfu af þessum teig. Ekki er þó allt kálið sopið efitr gott teighögg því mjög erfitt er að hitta flötina sem er handan við “sprunguna” svokölluðu. Aftan við flötina er grashóll en þess utan er hraunið.
Háanef
Brautin er stutt en þröng og mikilvægt er að ná beinu teighöggi. Flötin er falin innan um háa hraunskorpuna og er á þremur stöllum. Hraunið liggur alveg upp að flatarkantinum að aftanverðu en flötin er nokkuð opin ef komið er að henni frá hægri. Oft þurfa kylfingar að slá blint inn á þessa flöt og nauðsynlegt er að boltinn stöðvist sem fyrst eftir niðurkomuna á flötina.
Varðan
Fjórða holan er nokkuð erfið par þrjú hola og hér eru kylfingar eins fjarri klúbbhúsinu og komist verður í “Hrauninu”. Hættur eru ekki miklar á þessari holu nema helst fyrir aftan flötina og hægra megin við hana. Flötin er nokkuð stór og ætti að vera aðgengilegt að stöðva boltann á henni. Á þessari holu getur því skorið fyrst og fremst verið undir púttunum komið.
Bugðan
Hér þarf teighöggið að fljúga yfir mikla hraunbreiðu og lenda á braut sem hallar frá hægri til vinstri. Löng teighögg eiga á hættu að fara yfir brautina vinstra megin og út í hraun en þó er þar örlítill röffkantur og stöðvast boltinn þar gjarnan. Hraunið er hægra megin brautarinnar og ef kylfingar vilja komast klakklaust inn á flötina er nauðsynlegt að halda sig á braut. Flötin er stór og mikil brekka vinstra megin á henni. Rétt er að forðast að vera of langur í innáhögginu.
Gjótan
Falleg par þrjú hola sem lætur engan ósnortinn. Flötin sést aðeins að hluta til frá teignum þar sem að hátt hraunið skyggir á. Örlítil braut liggur vinstra megin með hrauninu en ef teighöggið á að fara á flötina þarf að slá hátt og hnitmiðað högg sem stöðvast fljótt. Það hjálpar þó til að flötin hallar örlítið frá teignum. Hraunið liggur nálægt flötinni hægra megin og fyrir aftan og geta “slæsarar” því átt í erfiðleikum með hana þessa.
Grænaskjól
Mikið landslag er í þessari braut og gríðarlega stór dalur er í grennd við lendingarsvæði flestra teighögga oft nefndur “dauðadalurinn”. Brautin liggur í hundslöpp til hægri en innkoman á flötina er í nokkurs konar vinkil til vinstri. Brautin er mjög breið þar sem teighöggin lenda en ef vel á vera þarf annað höggið að fljúga yfir hraunið og lenda þvert á nokkuð þrönga brautina eða inn á flötina. Þessa glæsilegu stóru flöt er þó nauðsynlegt að nálgast með gát því hraunið er skammt utan hennar.
Selstígur
Á áttundi holunni í “Hrauninu” leynast hætturnar fyrst og fremst í kringum flötina og flötin sjálf er ein sú erfiðasta á vellinum. Brautin er nokkuð breið og beggja megin hennar er röffkantur sem stöðvar bolta sem eru á leið í hraunið. Gott er að halda sig hægra megin í teighögginu því innáhöggið er oft þægilegra þaðan. Í kringum flötina er nánast engin braut eða röff, aðeins bert hraunið. Þrír stallar eru á flötinni og talsvert landslag.
Þvottaklettar
Brautin er nokkuð breið en betra er að vera vinstra megin því kletturinn hægra megin getur verið til trafala ef menn ætla inná flöt í tveimur höggum. Tjörnin, með tignarlegum gosbrunninum fyrir framan geysistóra flötina, kemr kylfingum fyrir sjónir sem bæði falleg og ógnvekjandi. Innáhöggið þarf því að vanda vel svo það lendi á góðum stað á flötinni. Betra er að vera of langur en of stuttur. Á flötinni eru tveir stallar en fyrir utan tjörnina eru ekki miklar hættur umhverfis flötina.
Hvaleyrin – seinni 9
West End
10. holan heitir eftir gömlu herstöðinni sem var á Hvaleyrinni í seinni heimsstyrjöldinni. Og má með sanni segja að hún standi undir nafni þar. Upphafshöggið má ekki vera lengra enn c.a 180 metrar ef þú ferð fram yfir 180 metrana þá tekur erfið brekka með þykku grasi glaðlega á móti boltanum. Styrjöldin hefst svo þegar annað höggið er slegið, flötin er varin með 5 glompum og miklu landslagi. Hér skiptir máli að staðsetja sig rétt eftir því hvar holan er skorin á flötinni. Það er oft gott að ganga af 10. flötinni með tvö pútt.
Hvaleyrarlón
Upphafshöggið þarf að vera hárnákvæmt til að enda ekki í lóninu. Best er að staðsetja sig hægra megin á brautinni til að þurfa ekki að eiga við landslagið sem er sérlega erfitt vinstra og hægra megin við flötina. Hér er gott að komast sem næst flötinni eftir upphafshöggið. Par er gott skor á þessari holu.
Yfir hafið og heim
Ekki er það lengdin sem gerir góða holu, hér er best að halda sig vinstra megin á flötina þar sem landslagið ýtir flestum höggum í átt að sjónum. Það má segja að 12 holan sé ekki svo ýkja erfið í góðu veðri enn getur verið erfið viðfangs ef hann blæs sem á það til að gerast á Hvaleyrarvelli.
Fúla
Brautin er löng og í örlitla hundslöpp frá vinstri til hægri en högglangir geta þó náð inn á flöt í tveimur höggum. Hægra megin brautarinnar ráðast vallarmörkin af Sjávarbökkum. Vinstra megin við brautina í grennd við lendingarsvæði teighöggana eru þrjár brautarglompur. Um hundrað metrum fyrir framan flötina eru tvær glompur sem ber að varast og í kringum flötina sjálfa eru þrjár glompur til viðbótar. Flötin sjálf er stór og liggur mjög nærri vallarmörkunum.
Vesturkot
Hér skiptir upphafshöggið miklu máli. Best er að miða á brautarglompuna hægra megin og draga bolta aðeins í átt að brautarmiðju. Ef þú ofgerir það þá taka tvær glompur glaðar á móti boltanum vinstra megin við brautina. Annað höggið þarf að skoða vel útfrá hvar holan er skorin á flötinni sem er vel varin af tveimur glompum. Hér er gott að sleppa einfaldlega við glompurnar og þá ætti 14. holan ekki að flækjast fyrir manni.
Sælakot
Þetta er löng par fjögur hola en brautin er nokkuð bein alla leið en hallar frá hægri til vinstri þar sem lendingarsvæði teighöggana er. Glompa er í röffinu hægra megin og því þjóðráð að halda sig vinstra megin í teighögginu. Gamli garðurinn við veginn framan við flötina er hættulegur. Flötin er stór á tveimur stöllum og hægra megin við hana er brött brekka sem í eru þrjár mannhæðadjúpar glompur. Við aftanverða flötina er enginn braut og liggja grónar klappir upp að flatarkantinum. Vallarmörk eru svo aðeins örfáa metra aftan við og hægra megin við flötina og markast af göngustíg sem þar liggur.
Stóra Sandvík
Það er ekki að ástæðulausu að að 16. holan er kölluð Stóra Sandvík, löng par 5 hola þar sem hætturnar eru á alla kanta alla leið. Best er að halda sér hægra megin á brautinni í upphafshögginu til að leggja upp fyrir annað höggið. Það eru ekki margir sem ná hér inn í tveimur höggum og sennilega því best fyrir flesta að leggja bara upp fyrir 3 höggið c.a 100 metra frá flötinni. Flötin er frekar lítil miðað við aðrar flatir á Hvaleyrinni og því er maður kominn í fuglafæri við það að hitta flötina í 3 höggi. Hér skal fara með aðgát og vanda sig í hverju höggi.
Hvaleyrarklettar
Sjórinn tekur glaður á móti öllum boltum sem fara vinstra megin við flöt hér. Flötin er löng og hallar að sjónum þannig að miðið er á hægri helming flatarinnar og láta landslagið bera boltann að holu. Hér skiptir vindátt öllu máli og getur breytt kylfuvalinu talsvert á milli daga eftir hvaðan blæs. Flötin er um 45 metrar að lengd og því skiptir lengdarstjórnun í púttunum miklu máli hér.
Hafnarbrekkur
Brautin hallar öll frá vinstri til hægri. Mjög erfitt er að staðsetja teighöggið á braut. Betra er að vera vinstra megin í teighögginu því hægra megin við brautina er mikil brekka. Brautarglompa vinstra megin getur þó sett strik í reikninginn en margir spilarar geta þó slegið yfir hana á góðum degi. Nokkur hæðarmunur er á brautinni og flötinni sem er nokkuð stór og slétt. Í kringum flötina er brekka niður á við og því oft betra að fara varlega í innáskoti og láta boltann rúlla inná flötina.