Úr því fæst skorið hverjir standa uppi sem stigameistarar Golfsambandsins árið 2024 þegar keppni lýkur í Hvaleyrarbikarnum í Hafnarfirði á sunnudaginn. Hvaleyrarbikarinn fer fram hjá Keili og er fimmta og síðasta stigamót sumarsins. Hefst keppni á morgun föstudag og eru leiknar 54 holur á þremur dögum.
Hvaleyrarvöllur hefur lengi verið einn besti keppnisvöllur landsins og nú gæti verið lag fyrir einhverja af okkar snjöllustu kylfingum að setja vallarmet í ljósi þess að tvær nýjar brautir voru teknar í notkun í sumar. Þar af leiðandi hefur völlurinn tekið breytingum sem kallar meðal annars á ný vallarmet. Hér gæti því skapast tækifæri til að skrá nafn sitt í sögu klúbbsins, ekki síst ef veðurguðirnir verða kylfingum hagstæðir.
Völlurinn er í virkilega góðu ásigkomulagi og reiðubúinn til að taka á móti bestu kylfingum á mótaröðinni. Mótshaldarar hjá Golfklúbbnum Keili leggja mikla áherslu á að umgjörð Hvaleyrarbikarsins sé eins og best verður á kosið og aðbúnaður keppenda sé góður. Kylfingar geta til að mynda slegið á grasi á æfingasvæðinu við Hraunkot fyrir og eftir hringina í stað þess að slá á gervigrasi.
Þá verða Keilismenn virkir á samfélagsmiðlum meðan á Hvaleyrarbikarnum stendur og þar verður hægt að fá ýmis tíðindi frá mótinu beint í rafræna æð.
Aron og Ragnhildur í efstu sætum
Nýbakaður Íslandsmeistari Aron Snær Júlíuson úr GKG er í býsna góðri stöðu á stigalista karla. Hann ætlar sér eflaust að bæta stigameistaratitlinum við Íslandsmeistaratitilinn en Aron Emil Gunnarsson, GOS, er í öðru sæti listans. Logi Sigurðsson GS er í þriðja sæti en Logi varð Íslands- og stigameistari í fyrra. Eru þeir allir skráðir til leiks í Hvaleyrarbikarnum.
Staðan er nokkuð frábrugðinn í kvennaflokki því tvær efstu á stigalista kvenna geta ekki tekið þátt í mótinu en það eru þær Ragnhildur Kristinsdóttir GR og Guðrún Brá Björgvinsdóttir Keili.
Hulda Clara Gestsdóttir GKG sem er í þriðja sæti listans er skráð til leiks en einnig gætu Eva Kristinsdóttir, GM, Pamela Ósk Hjaltadóttir, GM, Fjóla Margrét Viðarsdóttir, GS og Elsa Maren Steinarsdótir Keili blandað sér í baráttuna um efstu sætin með góðri spilamennsku í Hvaleyrarbikarnum.
Í Hvaleyrarbikarnum skapast upplagt tækifæri fyrir Hafnfirðinga og aðra áhugasama um golfíþróttina að rölta með kylfingunum og fylgjast með þeim takast á við völlinn. Mótið er mjög sterkt sem sést best þegar forgjöf kylfinganna er skoðuð. Margir kylfingar í mótinu eru með + í forgjöf. Hulda Clara er með lægstu forgjöfina hjá konunum eða +5,1 í forgjöf. Hún sigraði á mótinu í fyrra. Hjá körlunum er Sigurður Arnar Garðarsson einnig úr GKG með lægstu forgjöfina en hann er með +5,2.
Bikarinn hannaður í Japan
Keppt er um Hvaleyrarbikarana eins og nafn mótsins gefur til kynna. Verðlaunagripurinn á sér nokkra sögu og óvenjulega. Er hann einn af elstu bikurunum í safninu hjá golfklúbbnum Keili. Var bikarinn gefinn af Toyota umboðinu árið 1979 eða tólf árum eftir að klúbburinn var stofnaður. Var keppt um bikarinn á opnu móti hjá Keili sem haldið var í nokkur ár.
Bikarinn er veglegur og fremur óvenjulegur í útliti. Var hann hannaður og sérsmíðaður í listagallerí í Japan á sínum tíma. Þegar stigamótinu Hvaleyrarbikarnum var komið á fót árið 2016 þurfti að búa til annað eintak enda keppt í tveimur flokkum í Hvaleyrarbikarnum. Var bikarinn sendur til Kína með það fyrir augum að búa til eftirlíkingu en Kínverjarnir sem ætluðu að taka verkið að sér treystu sér ekki til þess þegar á hólminn var komið.
Höfðu Keilismenn þá upp á listagalleríinu í Japan og var þar smíðaður annar bikar sem gefinn var af Icewear. Þá þurfti raunar einnig að gera lítillega við bikarinn sem hafði skemmst á heimleiðinni frá Japan. Bikarinn hefur því farið nokkrar ferðir á milli Íslands og Asíu.