Keilir var með keppendur á Unglingamótaröð GSÍ og LEK mótaröðinni um helgina. Hjá unglingunum fór fram Nettómótið á Leirdalsvelli en reynsluboltarnir á LEK mótaröðinni spiluðu mót á Þorlákshafnarvelli á laugardeginum og á sunnudeginum á Hamarsvelli. Keilir var með keppendur í efstu sætum á öllum vígstöðum.
Á Nettómótinu var það Keiliskonan Elva María Jónsdóttir sem átti frammistöðu vikunnar. Elva sem keppti í flokki 14 ára og yngri gerði sér lítið fyrir og vann sinn flokk með 20 höggum. Spilamennska Elvu einkenndist af miklum stöðuleika en hún fékk mörg pör og gerði lítið af mistökum í gegnum mótið. Vel gert Elva!
Máni Freyr Vigfússon var bestur Keilismanna í drengjaflokki 14 ára og yngri en Máni endaði mótið í öðru sæti eftir hörkubaráttu um efsta sætið. Eftir stórglæsilegan fugl á lokaholunni í mótinu endaði Máni tveimur höggum frá bráðabana á 6 höggum yfir pari samtals.
Í flokkum 15-18 var það Keilispilturinn Skúli Gunnar Ágústsson sem endaði í þriðja sæti eftir flottan lokahring. Skúli endaði 14 höggum yfir pari í mótinu en hann náði að koma vel til baka eftir erfiðan fyrsta hring. Í stúlknaflokk komst engin af okkar keppendum í gegnum niðurskurðinn en aðeins efstu 70% keppenda fá þáttökurétt á lokahringnum. Sigurást Júlía Arnarsdóttir var næst því að komast í gegn af Keilisstúlkunum en par 5 holurnar á síðari 9 holunum komu í veg fyrir að hún komst í gegn.
Bætingu vikunnar átti Bjarki Hrafn Guðmundsson en hann bætti sig 14 högg á öðrum hringnum en þá fékk hann einnig örn “Ég sló driver á miðja braut og átti 157 metra eftir. Ég tók sjö járnið og setti það 2 metra frá holu. Svo sullaði ég því fyrir erninum, þekkir strákinn!” sagði kappinn, en Bjarki er einn af mörgum ungmennum í klúbbnum sem eru að sýna miklar bætingar í sumar.
Þórdís Geirsdóttir stal senunni á LEK mótaröðinni en hún vann bæði mótin um helgina á meðan engin Keilismaður náði að blanda sér í baráttuna karla megin. Þórdís er núna búinn að vinna öll 3 mótin á mótaröðinni til þessa, en henni tókst að sigra í Borganesi með þremur höggum þrátt fyrir að spila fyrstu holu mótsins á 10 höggum.
Næsta verkefni á mótaröðum GSÍ er um næstu helgi en þá fer fram Íslandsmót Kvenna í Holukeppni dagana 14-16 júní á Hlíðarvelli í Mosfellsbæ. Við munum að sjálfsögðu fylla Pizzabæinn af Keilisfólki næsta sunnudag til að fylgjast með konunum okkar keppa til úrslita í fyrsta Íslandsmóti sumarsins!