Það hefur gengið á ýmsu hjá vallastarfsmönnum okkar á undanförnum vikum.
Trackmanvæðing í Hraunkoti, frágangur á nýrri vélaskemmu og síðast en ekki síst opnun endurskipulagðrar Hvaleyrar. Eins og öllum alvöru verkefnum fylgir þessu öllu saman rask af einhverju tagi. Hvort sem er seinkun opnunar, lokanir á æfingasvæði, tilfærsla á teigum, úrgangur eða annað. Mikill skilningur hefur verið sýndur á slíkum röskunum af félagsmönnum okkar og vilja vallastarfsmenn þakka kærlega fyrir þann stuðning og sem okkur, og þeim verkefnum sem unnin hafa verið undanfarið, hefur verið sýndur. Í aðstæðum sem þessum er ómetanlegt að finna meðbyrinn frá kylfingum, og stafestinguna á því að við séum öll í sama liði.
Þó það sé ekki staðfest enn, þá ætti sumarið að vera á næsta leiti. Vellirnir okkar líta vel út og lítið er um alvarlegar skemmdir. Það þó er fyrirséð að mikil aðsókn verður á vellina á næstu misserum og langar okkur því að skerpa enn fremur á því góða samlífi sem starfsmenn og kylfingar lifa á svæðinu. Þrátt fyrir duglegt starfslið er verkefnalisti golfvallastarfsmanna ávallt ótæmandi og vinnutími takmarkaður. Að fara út á völl á morgnanna og sjá að fyllt hefur verið í kylfuför og rusli skilað í tunnur daginn áður, er einstaklega góð tilfinning, sem ekki er hægt að taka sem sjálfsögðum hlut í okkar umhverfi. Okkar upplifun er einnig sú að góð umgengni og virðing gangvart völlum Keilis, og vinnunni sem lögð er í þá, sé sífellt að aukast. Sérstaklega er gaman að sjá fólk virða þær umferðarstýringar sem settar eru upp. En þær skipta okkur gríðarlega miklu máli þegar mikið álag er á völlunum.
Draumur okkar allra er að golfvellirnir haldi áfram að vaxa og bjóði upp á bestu mögulegu upplifun. Slíkum markmiðum verður einungis náð með samstöðu og skorum við því á alla kylfinga að halda áfram góðri umgengni á svæðinu. Þá tíma dags sem vallastarfsmenn hvílast, eru það félagsmenn sem séð geta til þess að umferðarstýringar séu virtar, fyllt sé í kylfuför, nikótínpúðum sé hent og komið sé fram við svæðið okkar af almennri virðingu.
Við hvert lagað boltafar, torfusnepil eða skilað rusl, losnar tími fyrir starfsfólk okkar til að sinna sérhæfðari verkum. Við trúum því einlægt að með gaffla í grínum og snepla í sárum, geti sumarið 2024 orðið einstaklega gott og Hvaleyrar- og Sveinskotsvöllur skartað sínu allra fegursta.
Með kærri kveðju,
Guðbjartur Ísak Ásgeirsson, Haukur Jónsson og Rúnar Geir Gunnarsson