Það hefur verið einstaklega gaman að kíkja i klúbbhúsið okkar síðastliðna viku. Húsið iðar af mannlífi, kylfingar í spreng að komast út á völl eða þá hinir sem losna ekki við brosið af andlitum eftir fyrsta hring sumarsins á okkar yndislega velli.
Völlurinn kemur einstaklega vel undan vetri, töluverður munur frá síðasta ári og vallarstjórar okkar reikna með að opna inn á nýjustu holurnar miðvikudaginn 22. maí.
Það er ávallt mikið álag á vellina og núna fyrstu dagana hafa tæplega 400 kylfingar farið um vellina okkar á hverjum degi. Vil ég hvetja alla til að vera sérsaklega vakandi fyrir boltaförum á flötum því mikið er um slíkt núna þegar rakinn er mikill í flötunum. Góð regla er t.d. að laga sitt eigið boltafar og leita uppi minnst eitt boltafar í viðbót til að laga. Einnig vil ég óska eftir við þá sem nota bíla að keyra sem minnst á brautunum, keyra sem mest á stígum eða karganum.
Við getum verið stolt af því að vera með GEO vottaða starfsemi á golfvöllum okkar. Vottunin tekur sérstaklega til náttúrunnar, auðlindanotkunar og samfélagsins sem við störfum í. Hluti af þessu er að viðgöngum snyrtilega um vallarsvæðið með því að henda ekki rusli á víðavangi, heldur nota þar til gerðar stöðvar. Verum til fyrirmyndar og notum þessar stöðvar. Sérstaklega vil ég hvetja notendur nikotínpúða að henda ekki notuðum púðum í náttúruna og alls ekki í bakkana við teigmerkin.
Það getur reynst þrautinni þyngri að næla sér í rástíma. Þó svo að félögum hafi ekki fjölgað milli ára þá hefur ásókn kylfinga aukist og mörg okkar átt erfiðara en áður með að finna rástíma við hæfi. Því er afar mikilvægt að við umgöngumst þessa auðlind af virðingu, m.a. með því að afbóka sem fyrst þegar við sjáum fram á að geta ekki komist í skráðan tíma og ekki bóka bara upp á von eða óvon.
Að lokum vil ég minna á ‘Braut í fóstur’ og hvetja kylfinga til að finna sína braut sem þeir geta passað betur en aðrar. Finna má allar upplýsingar um átakið hérna á slóðinni Braut í fóstur sem var fyrst kynnt árið 2022.
Megi sumarið vera ykkur til gleði á golfvellinum og njótið samveru með vinum og ættingjum í þessari frábæru íþrótt okkar allra.
Kær kveðja frá stjórn Keilis.
Guðmundur Örn Óskarsson, formaður.