Mikið var um að vera hjá bestu kylfingum landsins um helgina. Fyrsta Unglingamótið á Unglingamótaröð GSÍ var spilað á Kirkjubólsvelli, seinna Vormótið var haldið á Nesvelli og LEK-mótaröðin var sett af stað með móti á Korpúlfsstaðarvelli. Keilir var með keppendur á öllum vígstöðum.

 

Í Unglingamóti 1 voru 9 kylfingar Keilis sem tóku þátt, 7 í piltaflokki og 2 í stúlknaflokki. Í piltaflokki var það Ólíver Elí sem spilaði best Keilismanna en hann spilaði hringina tvo á +8 sem dugði í 8. sæti, næstur var Skúli Gunnar í 10. sæti á +12. Best Keiliskvenna var Tinna Alexía en hún var í 11. sæti í 15-16 ára flokknum.

 

Í Vormóti NK var Keilir með 4 keppendur en mótið var fámennt. Bestur Keilismanna aðra vikuna í röð var Daníel Ísak en hann spilaði á 63 höggum (-7) á seinni hringnum. Við spurðum Daníel hvað hann hafi einbeitt sér að á seinni hringnum  “Ég hugsaði bara að ég væri að sækja á efstu menn og þurfti marga fugla”. Flottur hringur hjá Daníel sem kom honum í fjórða sæti í mótinu á 3 höggum undir pari samtals. Bryndís María var eini keppandi Keilis í kvennaflokki en hún náði sér ekki á strik í mótinu og endaði í 6. sæti.

 

Á fyrsta LEK móti sumarsins sigraði Keiliskonan Þórdís Geirsdóttir með einu höggi eftir hring upp á 79 (+7) og karlaflokki var Halldór Ingólfsson efstur Keilismanna í 4. sæti en hann spilaði á 74 (+2) höggum.

 

Síðast en ekki síst spilaði atvinnumaðurinn okkar Axel Bóasson í Danmörku um helgina á Áskorendamótaröð Evrópu. Axel spilaði alla hringina á eða undir pari og endaði í 37. sæti á 7 höggum undir pari. Okkar maður búinn að setja tóninn fyrir restina af tímabilinu.

 

Næsta föstudag mun Korpubikarinn hefjast, en það er fyrsta mótið á GSÍ mótaröðinni í ár. Margir kylfingar úr Keili eru skráðir til leiks, meðal annars atvinnumennirnir Axel Bóasson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Við óskum kylfingunum okkar góðs gengis og hlökkum til að fylgjast með þeim gera sitt besta.