Þau sem sitja í stjórn áfram og eiga eitt ár eftir að stjórnarsetu eftir stjórnarkjör á síðasta aðalfundi Keilis eru, Sveinn Sigurbergsson, Ellý Erlingsdóttir og Guðmundur Óskarsson.
Nái Guðmundur Óskarsson kjöri til formanns þarf því að kjósa um fjögur ný stjórnarsæti. Þrjú til tveggja ára og eitt til eins árs. Nái Guðmundur ekki kjöri til formanns mun hann halda áfram stjórnarsetu sinni.
Nú hafa fjórir félagsmenn lagt inn framboð til stjórnar Keilis.
Við minnum félagsmenn á að samkvæmt 8. grein laga Keilis þá skal stjórn kjörin á aðalfundi.
Stjórn Keilis skipa sjö félagsmenn. Stjórnin skal kosin á aðalfundi. Formann stjórnar skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn. Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára, þrír hvert ár. Framboð til stjórnar skulu berast skrifstofu Keilis eigi síðar en viku fyrir aðalfund.
Senda skal framboð á netfangið olithor@keilir.is
Núverandi stjórnarmennirnir Bjarni þór Gunnlaugsson og Már Sveinbjörnsson sækjast báðir eftir endurkjöri. Daði Janusson hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og eru Daða þökkuð vel unnin störf á liðnum árum.
Ný framboð eru frá Tinnu Jóhannsdóttur og Ólafi Ingi Tómassyni. Eftirfarandi er stutt kynning á þeim:
Kæru Keilisfélagar
Tinna Jóhannsdóttir heiti ég og er að bjóða mig fram til stjórnarsetu á aðalfundi 2023.
Ég hóf mína golfiðkun 1998, þá 12 ára gömul, og fór í gegnum barna og unglingastarfið hjá Keili næstu ár og komin með meistaraflokksforgjöf fjórum áður síðar. Þá tók við afreksstarfið en golfið átti hug minn allann næstu árin. Ég spilaði fyrir landsliðið í mörg ár, varð Íslandsmeistari í höggleik árið 2010 og valin kylfingur ársins af Golfsambandinu sama ár. Ég varð síðan Íslandsmeistari í holukeppni árið 2014 og Stigameistari 2015, en stuttu síðar fór ég að draga úr minni golfiðkun þar sem aðrir þættir lífsins fóru að biðja um athygli.
Síðan þá hef ég setið í mótanefnd hjá Golfsambandinu og þar sem ég var með sæti í 3 ár.
Síðastliðið árið hef ég setið í íþróttanefnd Keilis og tók einnig þátt í stefnumótunarverkefni á vegum Keilis í byrjun árs. Ég hef mikinn áhuga á að styðja við barna- og unglingastarfið, sem og afreksstarfið, og koma því í góðan farveg fyrir okkar ungu og efnilegu kylfinga. Ég trúi því að með því að styrkja afreksstarfið erum við að styðja við klúbbinn í heild sinni.
Ég, Ólafur Ingi Tómasson gef kost á mér til setu í stjórn Keilis. Ég hef verið félagsmaður í Keili í hátt í 30 ár og fylgst með klúbbnum okkar vaxa og dafna. Lán okkar í Keili er að þar er og hefur verið frábært starfsfólk með mikinn metnað fyrir klúbbnum okkar ásamt því að stjórn félagsins hefur ávallt verið skipuð fólki sem brennur af áhuga fyrir starfinu og uppbyggingunni. Þessu fólki vil ég þakka sérstaklega fyrir gott og óeigingjarnt starf í gegnum áratugina.
Sem bæjarfulltrúi og formaður í skipulags- og byggingarráði á árunum 2014-2022 var ég í góðum tengslum við klúbbinn varðandi skipulagsmál og önnur mál s.s. framkvæmdir á Hvaleyrinni og nýja vélageymslu. Einkar ánægjulegt er að sjá hve vel hefur tekist til með breytingarnar á Hvaleyrinni.
Mörg mál bíða næstu ára, má þar nefna að áfram þarf að halda með að bæta Sveinskotsvöll ásamt því að bæta stígakerfi vallarins. Kynntar hafa verið hugmyndir að stækkun golfskálans sem verður stórt en nauðsynlegt verkefni.
Um 1600 félagsmenn eru í Keili og ásókn um aðild er mikil. Ljóst er að vaxandi þörf er á nýjum golfvelli í Hafnarfirði. Núverandi aðalskipulag Hafnarfjarðar gerir ráð fyrir 9 holu golfvelli við Hvaleyrarvatn. Unnið er að nýju aðalskipulagi fyrir Hafnarfjörð, þar þarf að gera ráð fyrir 18-27 holu golfvelli sem yrði í upplandinu sunnan við Hvaleyrarvatn. Nái ég kjöri í stjórn Keilis mun ég leggja áherslu á að tryggt verði í aðalskipulagi Hafnarfjarðar svæði undir golfvöll sem mun verða rekin af Keili.
Um leið og ég óska eftir stuðningi ykkar til setu í stjórn hvet ég félagsmenn til að mæta á aðalfundinn.
Með vinsemd og virðingu.
Ó. Ingi Tómasson
Framboð til áframhaldandi stjórnarsetu.
Már Sveinbjörnsson fæddist í Hafnarfirði 27. Október 1947 og ólst þar upp ásamt því að vera í sveit á sumrin frá fjögurra til fimmtán ára aldurs.
Lærði vélvirkjun í Vélsmiðjunni Kletti við Vesturgötu, Vélfræði í Vélskóla Íslands og Rekstrartæknifræði í Tækniskólanum í Álaborg.
Starfaði sem rekstrarráðgjafi í sjávarútvegi og iðnaði frá 1975 til 1991, þjónustustjóri hjá innflutningsfyrirtækinu Globus 1991 til 1994 og frakmkvæmdastjóri Hafnarfjarðarhafnar 1994 til 2004 og hafnarstjóri til ársins 2016.
Hóf golfiðkun og gekk í golfklúbbinn Keili 1998
Hef setið í stjórn Keilis frá 2017 og er ritari stjórnar, er í stjórn Íþróttabandalags Hafnarfjarðar.
Er oddviti starfshóps um mótaröð keiliskylfinga 65 ára og eldri.