Nú er farið að síga á seinni hluta golfvertíðarinnar sem byrjaði seint en mun vonandi verði lengri í hinn endann.

Mikið hefur gengið á en eins og öllum er kunnugt komu vellirnar okkar verulega illa undan vetri og gríðarleg vinna og orka fór í að reyna að koma honum í eðlilegt horf.  Margt gott hefur áunnist en við erum enn að berjast við nokkrar brautir og er sérstakt átak í gangi þessa dagana við að koma þeim betur til.

Takk fyrir frábærar viðtökur

Keilir tók við rekstri veitingasölurnnar nú í vor og viljum við þakka fyrir sérstaklega góðar móttökur, Hrefna og hennar fólk hefur staðið sig frábærlega við erfiðar aðstæður þar sem allir eru nýjir og verið er að vinna hlutina frá grunni. Okkar helsta áskorun er sú að eldhúsið er löngu sprungið og annar illa eftirspurn á álagstímum. Það er því miður lítið við því að gera á meðan við höfum ekki tök á að bæta aðstöðuna og biðjum við því fólk að sýna þolinmæði þegar svo ber undir.

Við þökkum fjölmargar ábendingar, þetta er veitingastaðurinn okkar og við þurfum að vera vel vakandi og tilbúin að þróa hann áfram og breyta eftir þörfum og getu

Miklar framkvæmdir framundan í haust

Nú eru framkvæmdir við Hvaleyrarhluta vallarins að klárast á næstu mánuðum en fljótlega í byrjun október verður byrjað að  sameina 10 og 11 holuna í par 5 holu. Það gerir okkur kleift að opna tvær glænýjar holur næsta ár sem munu verða 16 og 17 holan á endanlegu skipulagi vallarins. Þetta hefur verið langt og strangt verkefni sem loksins sér fyrir endan á.  Á meðan á þessum framkvæmdum stendur munum við þurfa að loka brautum 10, 11 og 12 en hægt verður að spila hraunið og brautir 13-18.

Næsta vor er svo áætlað að endurgera tvo rauða teiga á 13 og 14 holunni, stækka þá og laga. Einnig verður nýr göngustígur frá 14. teig og að 14. brautinni lagður. Mikil áhersla verður lögð á snyrtingu á þeim svæðum sem hafa þurft að þola bið vegna framkvæmda síðustu ára og myndast nú tími til að gefa heldur betur í. Allir stígar á Hvaleyrarhluta vallarins verða svo hægt og rólega endurbyggðir með sjálfvirku vökvunarkerfi og verða þeir allir á grasi.

Ný vélageymsla og golfbílageymsla ásamt stórbættri aðstöðu vallarstarfsmanna rís

Loksins er bygging nýrrar vélageymslu hafin, fyrsta steypa var á síðastliðinn miðvikudag og er um að ræða 480 fermetra hús þar sem vélar og golfbílar klúbbsins verða geymdar. Þegar ný vélageymsla verður risin færum við okkur inní gömlu vélageymsluna og verður starfsmannaaðstaða og verkstæði löguð til og stórbætt til að uppfylla þær viðmiðanir sem settar eru í dag um sambærilega starfsemi.

Erlendir gestir.

Einsog félagsmenn hafa tekið eftir þá hafa erlendir gestir getað bókað sig með lengri fyrirvara en félagsmenn í gegnum bókunarvél á netinu.

Vegna ábendinga hefur verið ákveðið að takmarka mjög getu erlendra gesta til að bóka síg á álagstímum og hefur aðgengilegum rástímum verið fækkað umtalsvert á bókunarvélinni. Við vonum að með þessu skapist meiri sátt um þetta fyrirkomulag.

Veðrið í júlí hefur aldeilis leikið við okkur og hafa kylfingar notið einmunablíðu.

Vonum við að veislan haldi áfram fram eftir sumri.

Kveðja.
Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir
Formaður.