Stjórn Keilis hafa borist 4 framboð til stjórnarsetu í Keili. Verður því kosið um 3 stjórnarmenn á Aðalfundi Keilis n.k þriðjudag og hefst fundurinn klukkan 19:30.
Þau sem eru í framboði koma hér í stafrófsröð:
Ellý Erlingsdóttir
Guðmundur Örn Óskarsson
Margrét Berg Theodórsdóttir
Sveinn Sigurbergsson
Lesa má framboðspistla neðar í fréttinni.
Ágætu Keilisfélagar,
Ellý Erlingsdóttir heiti ég og gef kost á mér til áframhaldandi setu í stjórn, þá ákvörðun byggi ég á undangengnum skoðanakönnunum meðal félagsmanna sem sýna almenna ánægju með starfsemi klúbbsins og einlægum áhuga mínum í félagsstarfinu og golfi.
Á undanförnum misserum höfum við staðið í miklum framkvæmdum. Ráðist var í vel heppnaða stækkun klúbbhússins, hljóðvist bætt í salnum, anddyri og salerni endurnýjað og Hvaleyrin endurhönnuð. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til með þær brautir sem þegar hafa verið endurgerðar. Áfram ætlum við að taka skref til framfara með því að ljúka endurbótum á Hvaleyrinni, bæta starfsaðstöðu með því að byggja áhaldahús og huga að frekari stækkun klúbbhússins. Ég á sæti í starfshópi um stækkun golfskálans ásamt fleiri félagsmönnum. Auk þess hef ég starfað í rekstrarnefnd en á nú sæti í mannvirkjanefnd og er varaformaður klúbbsins.
Við höfum á að skipa frábæru starfsfólki sem sér um að koma áformum okkar um betri völl í framkvæmd og þjónusta félagsmenn og gesti. Klúbburinn okkar er annálaður fyrir gott félagsstarf og þar vil ég sérstaklega nefna frábært starf kvennanefndarinnar.
Við þurfum að halda áfram að laða að börn og ungmenni og byggja upp framtíðar leikmenn sem standa í fremstu röð og ætlunin er að bæta enn frekar í uppbygginu íþróttastarfsins. Einnig verðum við að hlúa að þeim sem vilja stunda íþróttina til að vera í góðum félagsskap, stunda útiveru og góða hreyfingu.
Ég er tilbúin til að taka áfram þátt í þessu góða starfi og fylgja eftir til enda þeim endurbótum og framkvæmdum sem standa yfir á Hvaleyrinni. Þegar þessu mikla framkvæmdatímabili líkur fær starfsfólk klúbbsins tækifæri og tíma til að huga enn betur að smærri viðhalds verkefnum og tryggja að vellirnir okkar séu í toppástandi á hverjum tíma.
Í stjórn hef ég orðað áhuga minn á að við tökum upp númeraða teiga eins og þekkist á ýmsum völlum og fékk það góðar undirtektir. Verkefnið braut í fóstur fékk sömuleiðis brautargengi og verður fylgt betur eftir á komandi golftímabili.
Ég vonast til að sjá ykkur sem flest á aðalfundi Keilis þriðjudaginn 6. des. kl. 19:30 og bið vinsamlegast um ykkar stuðning til stjórnarsetu.
Með góðri golfkveðju,
Ellý Erlingsdóttir, varaformaður Keilis.
Kæru Keilisfélagar.
Ég, Guðmundur Örn Óskarsson, gef kost á mér til áframhaldandi þátttöku í stjórn Keilis á aðalfundi 2022.
Undanfarin ár hefur golfklúbbur okkar gengið í gegnum þó nokkrar breytingar sem ég hef tekið virkan þátt í að koma í farveg. Þar helstar eru breytingar á Hvaleyrinni, sem mörgum finnst hafa vel heppnast, og svo breytingar á klúbbhúsi okkar svo eitthvað sé nefnt. Í hlutverk i mínu sem gjaldkeri Keilis undanfarin ár hef ég lagt áherslu á að fjármögnun á breytingum hafi verið tryggðar þannig að hefðbundinn rekstur færi ekki úr böndum eða auknar birgðir lagðar á félagsmenn.
Klúbburinn okkar heldur áfram að þróast og eru mörg spennandi verkefni á sjóndeildarhringnum. Nefna má þar helstar, stækkun klúbbhússins, nýtt áhaldahús og svo ef horft er til lengri tíma nýr golfvöllur í landi Hafnarfjarðar.
Ég brenn fyrir áframhaldandi uppbyggingu Golfklúbbsins Keilis og mun áfram tala fyrir ábyrgri stjórnun. Rekstur félagsins á að skila eðlilegum hagnaði til uppbyggingar eins og okkur hefur tekist undanfarin ár. Keilir á áfram að halda stöðu sinni sem besti golfvöllur landsins og verða áherslurnar á völlinn sjálfan alltaf í forgrunni.
Félagsmenn í Keili eru um 1.600. Mikilvægast er að stjórn félagsins hlusti á vilja félagsmanna til framþróunar á starfsemi félagsins. Ég vill hvetja félagsmenn til að mæta á aðalfund til að taka þátt í lýðræðislegri umræðu og hafa þannig bein áhrif á þróun þessa sameiginlega áhugamáls okkar, hið yndislega athæfi að slá og elta lítinn bolta.
Með virðingu og vinsemd.
Guðmundur Örn Óskarsson.
Ég undirrituð Margrét Berg Theodórsdóttir gef kost á mér til stjórnarsetu í Keili þann 6 desember n.k.
- Ég er 62 ára,gift, tveggja barna móðir og amma.
- Ég hef verið í Keili frá síðustu aldamótum og spilað golf meira en flestir aðrir í klúbbnum, er mér sagt
- Ég hef setið í stjórnum á vegum handboltans á Íslandi til margra ára. Þjálfað bæði börn og fullorðna á afreksstigi.
Í dag brenn ég fyrir golfið, og langar að vinna með þeim meirihluta meðlima sem spila sér til ánægju og yndisauka.
Nái ég kjöri mun ég leggja mig fram um að hlusta á þarfir félagsmanna og koma þeim í réttan farveg.
Mér finnst að í svona stórum klúbbi þurfi að vera meira gegnsæi, upplýsingagjöf til klúbbfélaga um breytingar bæði smáar og stórar, virkja betur nefndir og jafnvel fjölga þeim.
Ég myndi t.d. vilja takmarka stjórnarsetu í Keili við 2-3 ár kjörtímabil.
Með virðingu og vinsemd
Margrét Berg Theodórsdóttir
Kæru Keilisfélagar,
Sveinn Sigurbergsson heiti ég af heilum hug gef ég kost á mér til áframhaldandi starfa fyrir Keili og Keilisfélaga.
Með virðingu og vinsemd
Sveinn Sigurbergsson