Á síðustu árum hefur notkun golfbíla og tví- og þríhjóla aukist til muna á golfvöllunum okkar. Það hefur haft í för með sér að miklir álagsfletir eru að myndast á viðkvæmum svæðum á Hvaleyrarvelli.
Mannvirkjanefnd Keilis hefur skoðað málið upp á síðkastið og hefur gefið út reglur um það hvernig slík faratæki eiga að fara um völlinn. Við gerð reglnanna var reynt að hafa það að leiðarljósi að hafa þær fáar og skýrar. Reglurnar koma með að taka gildi frá og með deginum í dag, 12 . júlí.
Golfbíla- og farartækjareglur á Hvaleyrarvelli
Vinsamlegast farðu eftir þessum einföldu reglum þegar þú notar golfbíl eða önnur farartæki á Hvaleyrarvelli
- Það er stranglega bannað að fara nær flötum en sem nemur 20 metrum
- Það er stranglega bannað að keyra uppá teiga
- Á par 3 holum er bannað að keyra utan stíga
Einnig hefur verið ákveðið að fara í stefnumótunarvinnu varðandi hvaða farartæki ber að leyfa á golfvöllum Keilis. Sum þeirra faratækja sem eru í notkun eiga ekki heima á golfvöllum og eru frekar hönnuð fyrir notkun úti á vegum til að komast á milli staða. Þessi farartæki geta mörg hver valdið skaða á golfvöllum. Það er því mikilvægt að setja skýrar reglur um hvaða farartæki eru leyfð hjá Golfklúbbnum Keili. Þá er mikilvægt að það komi fram að ekki stendur til að banna eitt né neitt strax heldur er verið að marka stefnu til framtíðar og upplýsa félagsmenn um hvað við munum leyfa þegar fram í sækir.
Mannvirkjanefnd Keilis fagnar að sjálfsögðu þeim sem sýna þessari vinnu áhuga og vilja taka þátt í henni með okkur. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Óla Þór framkvæmdastjóra á netfanginu olithor@keilir.is til að komast í stefnumótunarvinnuna.
Þangað til stefnan í þessum málum hefur verið mörkuð er mikilvægt að félagsmenn viti hvað er óhætt að kaupa. Þeir félagsmenn sem eru að íhuga kaup á farartækjum til notkunar á golfvöllum eru því hvattir til að hafa samband við skrifstofu Keilis til að fá upplýsingar um hvaða farartæki eru talin æskileg til notkunar innan klúbbsins.