Ávarp formanns
Kæru golfarar, fyrir 13 árum síðan spilaði ég minn fyrsta forgjafahring. Hringurinn sá er ekki í frásögu færandi að öðru leiti en því að ég fékk par á 5. holu Sveinskotsvallar. 19 punkta á 9 holum og lækkun forgjafar úr 36 í 35. Mjór er mikils vísir og þarna var ekki aftur snúið, áhugamálið var fundið.
Ég var svo lánsamur að í kjölfarið dróst öll fjölskylda mín með mér inn í íþróttina. Á tímabili voru börnin okkar fjögur öll að æfa golf. Síðan þá á ég á að baki óendanlega margar gleðistundir á vellinum með þeim og fjölmörgum öðrum golfurum. Á golfvellinum hef ég einnig eignast vini til lífstíðar.
Íþróttin tók mig föstum tökum og áhuginn var mikill og ég hef verið svo lánsamur að kynnast mörgum góðum fyrirmyndum, sem við höfum sannarlega haft nóg af hér í klúbbnum í gegnum tíðina. Mér er í því sambandi sérstaklega minnistæð æfingaaðstaða sem Keilir hafði aðgang að á Dalshrauni fyrir tíma Hraunkots. Þar frömdu golfkennarar Keilis kraftaverk að mínu viti, í litlu plássi og án tæknibúnaðar. Mætti leita aftur í þá kistu eftir góðum hugmyndum. Þeir náðu að tendra neista í yngstu kylfingunum okkar og margir af okkar bestu kylfingum í dag stigu þar sín fyrstu skref.
Ég áttaði mig fljótt á því að þó áhuginn væri mikill þá gæti ég ekki hjálpað börnunum fram á við í íþróttinni öðruvísi en með hvatningu. Það varð því úr veturinn 2006/2007 að foreldraráð var endurvakið með mig innanborðs ásamt Snorra Þórissyni, Ragnheiði Kristinsdóttir heitinni og Knúti Bjarnasyni. Ég nefni þetta hér því að þarna kynntist ég fólki sem var til í að vaða eld og brennistein fyrir börnin sín og þar með Keili. Þannig fólki þarf félagsskapurinn á að halda. Ég legg jafnframt áherslu á þetta hér þar sem félagsskapurinn verður ætíð að hverfast um yngstu kylfingana, án þess verður ekki endurnýjun félaga og drifkraftur hverfur.
Fyrir 9 árum eða þann 9. desember 2008 var ég kjörin í stjórn GK. Síðan þá hef ég kynnst óteljandi kylfingum. Langflestir þeirra hafa verið frábærar fyrirmyndir. Einn og einn hefur sýnt af sér framkomu sem er ekki til eftirbreytni en upp úr stendur ánægjan af samskiptunum. Við megum aldrei gleyma því að íþróttin okkar snýst að svo miklu leiti um samskipti þó svo þú sért sjaldnast í meira en eins manns liði. Þá eru fáar íþróttir til þar sem þú getur átt eins þægileg samskipti við fólk ef þú það kýst. Einkunnarorð okkar í Keili: Virðing, Framsækni, Vellíðan, skjótast upp í huga mér þegar ég leiði hugann að þessum samskiptum.
Ég er óendanlega þakklátur fyrir þá reynslu sem ég hef hlotið á þessum árum. Ekki síst síðustu fjögur árin sem formaður klúbbsins. Framkvæmdir síðustu ára, í samstarfi við íþróttabæinn Hafnarfjörð hafa verið mér afskaplega ánægjulegar og lærdómsríkar. Tilfinningin sem fylgir því að taka þátt í breytingum eins og við höfum staðið fyrir, bæði á skálanum og vellinum, sem og tilfinningin þegar maður finnur á félagsmönnum og gestum að ánægjan er mikil, er ólýsanleg.
Ég tel að okkur í Keili hafi tekist að skapa okkur sérstöðu meðal golfklúbba, ekki einungis hér á Íslandi heldur mun víðar. Yfirstandandi breytingar á aðstöðu okkar eru nægjanleg ástæða til að benda á það. Við þurfum að halda ótrauð og óhikað áfram á þeirri braut.
Til að vera í fremstu röð þarf ætíð að stefna á að vera fremstur meðal jafningja.
Mig langar að færa öllum þeim sem starfað hafa með mér á vettvangi okkar undanfarin 11 ár, stjórnarfólki sem og starfsfólki klúbbsins, kærar þakkir fyrir samstarfið.
Ykkur félagsmönnum vil ég þakka traustið.