Kvennastarf

Í kvennanefnd árið 2017 sátu Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir formaður, Matthildur Helgadóttir gjaldkeri, Agla Hreiðarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Svava Skúladóttir en inn í nefndina fyrir starfsárið 2018 komu Dagbjört Bjarnadóttir og Elín Harðardóttir.

Púttmót og vorfagnaður

Starfsárið var með hefðbundnu sniði, Púttmótaröðin var á sínum stað en í heildina tóku 64 konur þátt í átta mótum og spiluðu þær 396 hringi samtals.  Vorfagnaður var svo haldin 17. mars þar sem Þórdís Geirsdóttir var krýndur púttmeistari ársins auk þess sem komandi golfvori var fagnað.

Vormót

Vormótið var haldið í Leirunni að þessu sinni og var fjölmennt í rútu þann 26. maí. Keiliskonur skemmtu sér að venju vel og áttu góðan dag. 

Opið kvennamót Altis

Annað árið í röð stóð kvennanefnd í samstarfi við Altis fyrir Opnu móti á Hvaleyrarvelli og var mótið haldið þann 12.ágúst. Mótið tókst vel í alla staði og var kvennanefndin mætt í skúrinn til að skenkja freyðivín og bjóða uppá makkarónur. Þetta mót er klárlega komið til að vera og verður það á dagskrá á sama tíma að ári. 

Haustferð

Að þessu sinni var haustferðin farin til Vestmannaeyja.  Ryder keppnin var á sínum stað og sigraði USA að þessu sinni en Keilistíkin árið 2017 er Guðrún Einarsdóttir.  Keiliskonur fengu sannarlega að finna fyrir veðurguðunum í þessari ferð en létu það lítið á sig fá enda öllu vanar. 

Mótaröð og vinkvennamót

Fyrsta mót sumarsins var 17. maí en alls voru spiluð átta mót, 101 kona tóku þátt og spiluðu þær samtals 331 hringi. Sigurvegari í forgjafaflokki 0-18,1 var Þórdís Geirsdóttir og í forgjafaflokki 18,1-34,4 var það Dagmar Sigurlaug Gunnarsdóttir. Að venju taldi vinkvennamót við GO sem haldið er á Hvaleyrarvelli inn í mótaröðina sem níunda mótið en Keiliskonur heimsóttu svo Urriðavöll og tóku enn og aftur bikarinn með sér heim. Formlegri dagskrá var svo lokið með Haustfagnaði þann 27. september.

Kvennanefndin þakkar öllum þeim konum sem tóku þátt fyrir frábært ár og hlökkum til nýrra ævintýra.