Ég heiti Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir og býð mig fram sem fulltrúa í stjórn Keilis.
Ég tel að Klúbburinn hafi verið að gera mjög góða hluti á undanförnum árum og það eru spennandi tímar framundan, ekki síst með breytingum á vellinum og hlakka til að taka þátt þeim. Ég tel mig hafa margt fram að færa, ég spila mikið og víða og endurspegla líklega vel hinn almenna kylfing.

Ég byrjaði að dunda mér á Sveinskotsvelli árið 2010 og gekk svo formlega í klúbbinn 2011. Ég kolféll nánast samstundis fyrir golfinu og hef nýtt árgjöldin afskaplega vel frá byrjun. Ég fékk frábærar móttökur sem byrjandi í gegnum kvennastarf klúbbsins og gekk svo sjálf til liðs við kvennanefndina haustið 2013 og á að baki skemmtilegt og viðburðarríkt starfsár. Ég tel það vera mjög góðan kost að geta verið tengiliður milli stjórnar og kvennanefndar.

Ég er fædd á Djúpavogi en er uppalin í Hafnarfirði og hef búið hér undanfarin ár ásamt sambýlismanni mínum, Jóni Inga Jóhannessyni sem er einnig mjög duglegur að nýta Keilisvöllinn.

Ég er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri með mastersgráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. Ég er fjármálastjóri hjá Malbikunarstöðinni Hlaðbæ Colas hf og hef sinnt því starfi s.l. 7 ár. Meðfram því er ég varamaður í stjórn Sameinaða Lífeyrissjóðsins.

Ég hef í gegnum tíðina sinnt ýmsum félagsstörfum, ég er formaður í fjallaklúbbnum Þórólfi, var gjaldkeri hjá félagi sjávarútvegsfræðinema, sat í knattspyrnuráði Neista á Djúpavogi auk þess að hafa verið í ýmsum nefndum og ráðum sem fylgja því að búa í litlu samfélagi eins og á Djúpavogi.

Ég hef verið dugleg að taka þátt í því starfi og viðburðum sem klúbburinn hefur haft upp á bjóða enda hefur félagsstarfið verið í miklum blóma. Hér hef ég kynnst frábæru fólki þannig að það er aldrei skortur á skemmtilegum spilafélögum

Mig langar að biðja ykkur að mæta á aðalfund þriðjudaginn 9.desember n.k. og veita mér ykkar atkvæði.