Gísli Sveinbergsson skrifaði í kvöld undir samning um skólastyrk við Kent State háskólann í Bandaríkjunum. Kent State er gífurlega sterkur háskóli þegar kemur að golfi og mun Gísli byrja að leika fyrir skólann næsta haust. Skrifað var undir skólastyrkinn í golfskála Keilis og voru formaður Keilis, íþróttastjóri og framkvæmdastjóri viðstaddir svona til að allt færi rétt fram. Gísli var valinn efnilegastur pilta af afreksnefnd GSÍ 2014. Hann er einnig efstur íslenskra áhugamanna á heimslista áhugamanna (WAGR), en hann er í 107. sæti, sem er besti árangur Íslendings frá stofnun listans 2007.

„Gísli hefur sýnt það með árangri sínum að hann er án efa ein allra bjartasta von okkar Íslendinga í golfheiminum. Hann er vinnusamur, metnaðarfullur, yfirvegaður, alltaf bjartsýnn og jákvæður. Gísli ber með sér alla kosti afreksíþróttamanns og er afar góð fyrirmynd annara.“ Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari.

Hér má sjá frétt um undirskrift Gísla á heimasíðu Kent State háskólans.

Stjórn Keilis og allt Keilisfólk óskar Gísla velfarnaðar á þessari skemmtilegu vegferð sem mun hefjast næsta haust.