Fréttir

Styrktarmót fyrir Axel

22.05.2017
Sunnudaginn 28. maí verður haldið á Hvaleyrarvelli styrktarmót fyrir Axel Bóasson og verður leikið tveggja manna Texas Scramble. Axel hefur verið að leika á Nordic Golf League mótaröðinni og hefur verið að gera vel undanfarið. Axel tók risastökk um daginn á heimslistanum og fór upp um 444 sæti eftir góðan árangur á Nordic Golf League.  Eins og fyrra verður Axel með púttleik á púttflötinni fyrir neðan golfskálann og kostar 1000 kr að taka þátt. Þar verða glæsileg gjafabréf frá Heimsferðum í boði. Í mótinu sjálfu verða einnig glæsileg verðlaun í boði og kostar 6000 kr á mann að taka þátt í því. Axel verður að sjálfsögðu á svæðinu allan tímann og um að gera að koma við og sýna honum stuðning. Skráning fer fram á golf.is og í síma 565-3360 og hvetjum við sem flesta að taka þátt og sýna stuðning. AxelBmot

Úrslit Icelandair Golfers

20.05.2017
Golfsumarið stóra hjá okkur Keilisfólki byrjaði vel. Fyrsta opna mót sumarsins var haldið í dag og tóku 141 kylfingur þátt í mótinu. Icelandair Golfers mótið tókst einstaklega vel og lék veðrið við alla. Völlurinn kemur mjög vel undan vetri og mátti heyra það á þeim sem tóku þátt. Margir voru að sjá breytingarnar á golfskála Keilis í fyrsta sinn og það gladdi okkur mjög að heyra frá gestum okkar sem voru mjög ánægðir með glæsilegar breytingar. Mikið verður í gangi hjá okkur í sumar og stærst er að sjálfsögðu sjálft Íslandsmótið í golfi sem verður haldið á Hvaleyrarvelli. Mjög svo spennandi tímar framundan, en einnig mun Keilir taka í notkun þrjár glæsilegar nýjar brautir á Hvaleyrinni. Veitt voru verðlaun fyrir fimm sæti í punktakeppni og að sjálfsögðu fyrir besta skor dagsins. Nándarverðlaun voru á öllum par 3 brautum vallarins. Golfklúbburinn Keilir og Icelandair Golfers þakkar öllum þeim sem tóku þátt kærlega fyrir þátttökuna. Vinningshafar dagsins geta svo sótt vinninga sína á skrifstofu Keilis frá og með mánudeginum 22. maí 2017. Úrslit urðu eftirfarandi: Besta skor Icelandair Golfers 2017 Alfreð Brynjar Kristinsson  GKG   72 högg Punktakeppni Icelandair Golfers 2017 1. sæti Guðmundur Guðmundsson  GR  42 punktar 2.sæti Pétur Pétursson  GM  40 punktar 3.sæti Bragi Þorsteinn Bragason  GO  39 punktar 4.sæti Guðjón Reyr Þorsteinsson  GÁS  39 punktar 5.sæti Svavar Gísli Ingvarsson  GKG  38 punktar Nándarverðlaun Icelandair Golfers 2017 4. braut  Sveinn Snorri Sverrisson GKB  99 cm 6.braut Jón Erling Ragnarsson  GK  1,35 m 10.braut Rafn Stefán Rafnsson  GB  55 cm 16.braut Alda Harðardóttir  GKG  2,24 m Við óskum öllum vinningshöfum til hamingju með árangurinn og minnum á að sækja þarf vinninga innan sex mánaða. icelandair golfers_2017  

Breytingar í slætti á Hvaleyrinni

20.05.2017
Nú er hafið merkilegt sumar í sögu golfklúbbsins Keilis.  Ekki nóg með það að stórum áfanga hefur verið náð með 50 ára afmæli klúbbsins, heldur verða einnig töluverðar breytingar á vellinum.  Þrjár nýjar holur verða teknar í notkun um mitt sumar, á sama tíma og við kveðjum þrjár. Til þess að breytingarnar gangi sem hraðast í gegn, höfum við þurft að breyta slætti á 12.-14. holu.  Þar sem að 13. holan mun leggjast af, þá myndast aukið pláss á milli 12. og 18. holu.  Brautin á 12. verðu því færð nær 13. í létta hundslöpp frá vinstri til hægri.  Brautarglompunni á 12. verður lokað, en glompan á 13. (sem núna verður í brautarjaðri þeirra 12.) mun halda sér, þessa breytingu má sjá vel á myndinni sem fylgir fréttinni.  Hægri kantur 12. brautar verður að slegnum karga, en óslegni karginn mun haldast óbreyttur (færist þó í raun lengra frá brautinni).  Boltar ættu hinsvegar að stoppa í hallanum, frekar en að rúlla í óslegna kargann við þessar breytingar… við getum að vísu ekki lofað neinu fyrir kraft-sneiðarana (e. power fade). Þar sem að 13. og 14. brautin verða að kargasvæðum í framtíðinni, munu þessar brautir verða slegnar í for-karga hæð (semirough) í sumar, eða fram að mánaðarmótum júní/júlí.  Þegar farið verður inn á nýju brautirnar þurfa þessi svæði að vaxa hratt upp svo aðvöllurinn spilist rétt í Landsmótinu í höggleik, sem fer fram seinni hluta júlí mánaðar.  Þar sem að grasvöxtur á 13. og 14. er frekar hægur, þá höfum við tekið þessa ákvörðun.  Við viljum ekki hraða grassprettunni með áburðargjöf, þar sem að það getur haft neikvæð langtímaáhrif á grasasamsetningu á svæðinu. Við vonum að kylfingar sýni þessu skilning á þessum spennandi tímum sem framundan eru.  Áður en við vitum af, þá verðum viðleikandi okkar magnaðasta golf á nýjum glæsilegum golfholum með glaðbeitt bros að vopni.

Fyrsta opna mót sumarsins

17.05.2017
Þá er komið að því að keppnistímabilið hefjist á Hvaleyrarvelli. Við byrjum einsog áður á Opna Icelandair Golfers mótinu. Glæsileg verðlaun í boði einsog ávallt.... Veitt verða verðlaun fyrir besta skor og 5 efstu sætin í punktakeppninni, einnig að sjálfsögðu fyrir að vera næstur holu á öllum par 3 holum vallarins. Við þökkum Icelandair kærlega fyrir samstarfið.
Næsta »